Talsmaður lögreglunnar í Waco, í Texas ríki Bandaríkjanna, sagði í dag að 192 einstaklingar verði ákærðir vegna skotbardaga sem átti sér stað í borginni á sunnudag, þar sem vélhjólagengi tókust á í blóðugum átökum. The New York Times greinir frá málinu.
Skotbardaginn átti sér stað við vinsæla verslunarmiðstöð í Waco, þar sem níu meðlimir vélhjólagengja létu lífið og átján slösuðust. Lögregluyfirvöld á staðnum segja að átökin hafi átt sér stað á milli vélhjólagengjanna Bandidos og Cossacks, en gengin hafa lengi eldað grátt silfur saman, en auk þeirra tóku meðlimir þriggja annarra vélhjólagengja þátt í bardaganum.
Þeir sem voru handteknir eftir átökin horfa fram á að vera ákærðir fyrir aðild að skipulagðri glæpastarfsemi. Þeir voru leiddir fyrir dómara í gær, sem kváðu upp úrskurð sinn að þeim yrði ekki sleppt nema gegn einnar milljónar Bandaríkjadala tryggingu.
Slagsmál sem þróuðust út í blóðugan skotbardaga
Veitingastaðurinn Twin Peaks, þar sem átökin brutust út, verður lokaður í viku vegna rannsóknar lögreglu sem og hluti verslunarmiðstöðvarinnar sem varð hvað harðast úti í skotbardaganum.
Átökin hófust um hádegisbilið að staðartíma fyrir utan áðurnefndan veitingastað og færðust síðar út á bílastæði verslunarmiðstöðvarinnar. Fyrst var um hópslagsmál að ræða sem fljótlega þróuðust út í vopnuð átök með hnífum, keðjum, kylfum og loks skotvopnum. Vopnaðir lögreglumenn voru fljótir á staðinn þar sem lögregluyfirvöld höfðu áhyggjur af því að til átaka kæmi á milli hundruða meðlima fimm vélhjólagengja sem höfðu safnast saman fyrir utan veitingastaðinn.
Ljósmynd sem lögregluyfirvöld í Waco birtu á Facebook-síðu sinni í dag sem sýnir vélhjól fyrir utan veitingastaðinn Twin Peaks. Mynd: EPA
Þegar laganna verðir mættu á bardagasvæðið snérust vélhjólagenginn sér fljótlega að þeim og létu byssukúlur rigna yfir þá, sem svo svöruðu með því að fella og særa nokkra vélhjólamenn. Átta þeirra létu lífið í bardaganum sjálfum, sá áttundi á sjúkrahúsi. Hinir slösuðu voru síðar sömuleiðis fluttir á sjúkrahús með skot- og stungusár. Mikil mildi þykir að enginn lögreglumaður eða saklaus borgari hafi slasast í bardaganum, en lögregla haldlagði um hundrað vopn í kjölfar átakanna.
Hunsuðu tilmæli lögregluyfirvalda
„Þetta er versta ástand sem ég hef orðið vitni að á mínum 34 ára ferli,“ hefur The New York Post eftir lögreglumanni sem var á vettvangi. „Það var blóð út um allt.“
Twin Peaks veitingastaðurinn hefur áður hýst fjöldasamkomur vélhjólagengja, en lögregluyfirvöld gagnrýna eigendur staðarins fyrir að neita að hlýða tilmælum lögreglu um að staðurinn hentaði ekki undir samkomur af slíku tagi. „Þeir hafa ítrekað leyft þessum vélhjólamönnum að koma saman hjá sér, og það sem gerðist er afleiðing af því,“ segir áðurnefndur lögreglumaður í samtali við The New York Post. „Það hefði verið hægt að komast hjá þessum hræðilega atburði ef þeir hefðu bara hlustað á okkur og farið að ráðum okkar.“
Twin Peaks, sem er veitingahúsakeðja í Texas, hefur harmað atvikið í fréttatilkynningu og lofað bót og betrun og að staðurinn muni gera allt sem í sínu valdi stendur til að vinna framvegis með lögregluyfirvöldum til að hindra slík voðaverk.
Samkvæmt umfjöllun The New York Post má rekja tildrög byssubardagans til deilna um bílastæði.