Samtals hafa 194 stjórnarmenn farið í viðtal hjá ráðgjafarnefnd um hæfi stjórnarmanna á árunum 2010 til 2014. Af þeim reyndust 180 stjórnarmenn vera með fullnægjandi þekkingu og 14 með ófullnægjandi. Þetta kemur fram í Fjármálum, vefriti Fjármálaeftirlitsins, en ekki er tiltekið um hvaða stjórnarmenn er að ræða.
Við mat á þekkingu stjórnarmanna fjármálafyrirtækja, vátryggingarfélaga og lífeyrissjóða getur Fjármálaeftirlitið óskað eftir umsögn ráðgjafarnefndar um hæfi stjórnarmanna. Reynist þekking stjórnarmanna ófullnægjandi er algengast að viðkomandi segi sig í kjölfarið úr stjórn eftirlitsskylds aðila að eigin frumkvæði. „Einnig hefur komið til þess að stjórn Fjármálaeftirlitsins víki stjórnarmanni úr stjórn viðkomandi aðila á grundvelli heimildar“ í lögum, segir í Fjármálum.
Einnig er vikið að kynjahlutfalli í stjórnum en lög kveða á um að hlutafélög og lífeyrissjóðir skuli að lágmarki vera með 40 prósent af hvoru kyni í stjórnum. Sama gildir um kynjahlutföll meðal varamanna. Í lögum um hlutafélög miðast framangreint við stjórnir félaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli.