Að hámarki 200 manns mega koma saman frá og með miðnætti annað kvöld. Tekin verður upp eins metra nálægðarregla og krár og veitingahús þurfa að loka dyrum sínum á miðnætti, og hætta að selja vín kl. 23. Fjöldatakmarkanir verða einnig teknar upp í sundlaugum og líkamsræktarstöðvum.
Þetta ákvað ríkisstjórnin á fundi sínum á Egilsstöðum í dag, samkvæmt því sem fram kom í kvöldfréttum RÚV og í útsendingu á Vísi.
Þar útskýrðu þær Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra stóru línurnar í því sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.
Katrín sagði við RÚV að full samstaða hefði verið innan ríkisstjórnarinnar um að grípa til þessara aðgerða. Hún sagði að stjórnin hefði talið ástæðu til að „tempra stöðuna núna“, en fundurinn á Egilsstöðum stóð yfir í tæpar þrjár klukkustundir.
Mánuður er síðan allar sóttvarnaráðstafanir innanlands voru felldar úr gildi, en nú er á ný gripið til þess ráðs að hefta mannlífið til þess að hægja á útbreiðslu COVID-19, en yfir þrjú hundruð manns hafa greinst með smit undanfarna daga.
Þessi niðurstaða þýðir meðal annars að fjölmennir tónleika- og útihátíðir sem til stóð að halda á næstu dögum og vikum geta væntanlega ekki farið fram.