200 ríkustu fjölskyldur landsins áttu 4,6 prósent af heildareignum íslensku þjóðarinnar í lok árs 2013. Alls eiga þessar um 200 fjölskyldur 182 milljarða króna. Fyrir 20 árum síðan átti sama hlutfall íslensku þjóðarinnar 2,6 prósent af heildareignum hennar, en þá voru fjölskyldurnar 144. Á góðærisárunum fyrir hrun jókst hlutfall eigna þessa þrönga hóps umtalsvert og fór hæst í 5,8 prósent af heildareignum þjóðarinnar árið 2007. Síðan hafa eignir hópsins dregist hlutfallslega saman á milli ára. Hlutabréfaeign er metin á nafnvirði, ekki markaðsvirði, og því er afar líklegt að eignir þeirra ríkustu séu talsvert meiri en kemur fram hér að ofan. Hinir ríkustu eru enda líklegri en aðrir til að vera umsvifamiklir eigendur hlutabréfa.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, um eignir og tekjur landsmanna.
Tíu þúsund fjölskyldur eiga helming eigin fjár
Fyrirspurn Árna Páls er í nokkrum liðum. Í fyrsta lagi spurði hann um hvert eigið fé þeirra sem mest eiga hafi verið árið 2013. Í svari ráðherra kom fram að þau fimm prósent landsmanna sem mest áttu í lok þess árs hafi verið 1.052 milljarðar króna. Þessi hópur, sem telur um tíu þúsund fjölskyldur, átti tæplega helming alls eigin fjár á Íslandi í lok þess árs.
Ríkasta eitt prósent landsmanna átti um 483 milljarða króna í eigið fé (22 prósent af eigið fé landsmanna) og ríkasta 0,1 prósentið, um 200 fjölskyldur, áttu 169 milljarða króna (7,7 prósent alls eigin fjár).
Sögulega hefur eign þessara hópa sem hlutfall af heildar eigin fé landsmanna aukist frá tíunda áratugnum en dregist lítillega saman frá góðærisárunum.
Vert er að taka fram að hlutabréf eru talin á nafnvirði í þessum gögnum og því má ætla að eignir ríkustu eignahópanna séu talsvert meiri en kemur fram í röðuninni, enda hefur það komið í ljós í seinni álagningu auðlegðarskatts. Fasteignir eru taldar á fasteignamatsverði.
200 fjölskyldur eiga 182 milljarða
Eigið fé er mismunur skulda og eigna. Þegar heildareignir ríkustu fjölskyldna landsins eru skoðaðar kemur í ljós að þær eru ekki mjög skuldsettar. Heildareignir 200 ríkustu fjölskyldna í landinu í árslok 2013 voru um 182 milljarðar króna, eða um 13 milljörðum krónum meiri en eigið fé þeirra. Það þýðir að ríkasta 0,1 prósent landsmanna á um 4,6 prósent af heildareignum þeirra.
Heildareignir ríkasta eins prósents landsmanna var 531,5 milljarðar króna á sama tíma (13,3 prósent af heildareignum landsmanna) og ríkustu fimm prósent þjóðarinnar áttu 1.255 milljarða króna (31,5 prósent allra eigna).