Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, boðar þingsályktunartillögu um breytingar á Ríkisútvarpinu (RÚV). Hann segir að endurmeta þurfi rekstur og hlutverk RÚV í ljósi nýs fjölmiðlalandslags og að tillagan gæti komið fram í vor. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun.
Þar segir einnig að ráðherrann telji að á grundvelli afgreiðslu slíkrar tillögu sé hægt að "stíga næsta skref" varðandi RÚV. Illugi vildi ekki greina frá hvað hann ætti við með því og sagði að hann myndi gera það síðar.
Þessi boðun ráðherrans kemur í kjölfar skýrslu skýrslu nefndar sem Illugi skipaði 7. maí síðastliðinn til að greina þróun á starfsemi RÚV ohf. frá stofnun, og kom út í vikunni. Þar var rekstur fyrirtækisins harðlega gagnrýndur. Gerð skýrslunnar hefur einnig verið harðlega gagnrýnd og hún sögð pólitískt plagg sem nota eigi til að grafa undan rúv. Þá hefur Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagt að rangfærslur sé að finna í skýrslunni, m.a. um fjárkröfur RÚV.
Illugi vill að útvarpsgjaldið verði ekki lækkað
Í skýrslunni, sem nefnd undir formennsku Eyþórs Arnalds vann, segir meðal annars að rekstur RÚV hafi ekki verið sjálfbær frá því að fyrirtækið var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007. Alls nemur tap umfram hagnað 813 milljónum króna á því tímabili, og er þar gert ráð fyrir þeim tekjum sem RÚV hefur af útvarpsgjaldi sem landsmönnum er skylt að greiða. Samt sem áður gera áætlanir RÚV, sem fyrirtækið vinnur eftir, ráð fyrir því að það fái hærra útvarpsgjald en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins, að 3,2 milljarða króna lán vegna lífeyrisskuldbindinga hverfi úr efnahag RÚV og að sala á byggingarétti á lóð fyrirtækisins gangi eftir. Gangi allar þessar forsendur ekki eftir er rekstur RÚV eins og fyrirtækið er rekið í dag ósjálfbær.
Útvarpsgjaldið sem rennur að mestu til RÚV var lækkað um síðustu áramót, úr 19.400 krónum í 17.800 krónum. Um næstu áramót á að lækka það aftur í 16.400 krónur. Í Fréttablaðinu í gær var haft eftir Illuga að hann ætli að leggja það til að útvarpsgjaldið muni ekki lækka um komandi áramót. Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um hvort ríkið yfirtaki lífeyrisskuldbindingarnar sem fylgdu RÚV þegar fyrirtækið var gert að opinberu hlutafélagi.
Í tilkynningu sem RÚV sendi frá sér í gær er sagt að skýrslan sem full af rangfærslum. "Fullyrt er að Ríkisútvarpið geri kröfu um skilyrt viðbótarframlag til næstu fimm ára og í áætlunum félagsins sé gert ráð fyrir verulega hækkuðu ríkisframlagi, þ.á.m. að 3,2 milljörðum króna verði varið til að létta skuldum af Ríkisútvarpinu. Þetta er ekki rétt. Ríkisútvarpið hafði vakið athygli nefndarinnar á að fullyrðingar þeirra í skýrsludrögum væru rangar og jafnframt að þeim væri óheimilt með tilliti til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 að birta upplýsingar sem vörðuðu rekstraráætlanir félagsins, þar með talið ósamþykktar sviðsmyndir, enda höfðu nefndarmenn ritað undir trúnaðaryfirlýsingu þess efnis.
Hið rétta er að stjórn Ríkisútvarpsins hefur samþykkt rekstraráætlun fyrir tímabilið 1. september 2015 til 31. ágúst 2016. Þessi áætlun gerir ráð fyrir að útvarpsgjaldið lækki ekki frekar heldur haldist það óbreytt eins og mennta- og menningarmálaráðherra hefur boðað. Sú áætlun verður uppfærð og lögð fyrir stjórn fyrir árslok og mun þá taka til almanaksársins 2016. Einnig liggja fyrir áætlanir sem gera ráð fyrir viðbrögðum félagsins ef forsendur um óbreytt útvarpsgjald ganga ekki eftir í meðförum þingsins. Þær áætlanir fela í sér umtalsverða skerðingu á þjónustu og dagskrá Ríkisútvarpsins. Í öllum áætlunum stjórnenda Ríkisútvarpsins er gert ráð fyrir hallalausum og sjálfbærum rekstri á næsta rekstrarári, eins og raunin hefur verið á síðastliðnum tólf mánuðum.“