Prentsmiðjan Oddi sagði um mánaðarmótin upp tólf starfsmönnum, og þá mun Þorgeir Baldursson, sem verið hefur forstjóri Odda um langt árabil, hætta störfum á næstunni sökum aldurs. Staða forstjóra var auglýst laus til umsóknar fyrir tveimur vikum.
Baldur Þorgeirsson, framkvæmdastjóri innlendrar starfsemi Kvosar, móðurfélags Odda, og framleiðslueininga, staðfesti þetta í samtali við Kjarnann fyrr í dag. „Þetta eru hagræðingaraðgerðir af okkar hálfu, og óhjákvæmilegar,“ sagði Baldur, en hann sagði enn fremur að fólk með áratuga starfsreynslu hjá fyrirtækinu hefði verið meðal þeirra sem sagt hefði verið upp. „Starfsfólk okkar er með mikla starfsreynslu heilt yfir, svo það er óhjákvæmilegt að aðgerðir sem þessar nái til fólks með mikla reynslu,“ sagði Baldur. Hann sagði aðgerðir líkt og nú hefur verið gripið til alltaf erfiðar, en vonir stæðu til þess að með þeim kæmist reksturinn á réttan kjöl.
Útlit er fyrir að heildarvelta Odda muni dragast saman á þessu ári miðað við árið í fyrra, en muni þó nema ríflega fimm milljörðum króna. Um 300 manns hafa unnið hjá fyrirtækinu undanfarin ár.
Kristinn ehf., félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, eiganda Ísfélagsins, Íslensk/Ameríska og stórs hluta Morgunblaðsins, keypti meirihluta hlutafjár í Kvos, móðurfélagi Odda, í nóvember 2013. Seljendur voru einkum fjölskyldur nokkurra erfingja stofnenda Odda, og var kaupverðið sagt trúnaðarmál í tilkynningu. Eignarhluti Þorgeirs Baldurssonar, forstjóra Kvosar, hélst þó óbreyttur eftir aðkomu Kristins.