Bankaráðs Seðlabanka Íslands hefur samþykkt að láta gera athugun á framkvæmd gjaldeyrisreglna bankans, m.a. vegna nýlegrar niðurstöðu umboðsmanns Alþingis þar sem atriði í framkvæmdinni voru gagnrýnd. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þar er haft eftir Þórunni Guðmundsdóttur, formanni bankaráðsins, að viðræður standi yfir við ákveðin aðila um að taka að sér rannsókn málsins. Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir því að Seðlabankinn hafi leitað til Lagastofnunar Háskóla Íslands varðandi rannsóknina.
Til stendur að rannsaka lagalegan grunn gjaldeyrisreglnanna og framkvæmd þeirra. Auk þess stendur til að rannsaka stofnun Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ).
Engin hlotið dóm fyrir brot á gjaldeyrislögum
Fjárfestirinn Heiðar Guðjónsson kvartaði til umboðsmanns Alþingis í nóvember 2010 vegna málsmeðferðar sem hann fékk í seðlabankanum, og leiddi m.a. til þess að Heiðar fékk ekki að kaupa trygginafélagið Sjóvá. Heiðar metur tjón sitt á um þrjá milljarða króna, likt og Kjarninn fjallaði um í fréttaskýringu þann 21. október.
Umboðsmaður skilaði loks áliti sínu í málinu 6. október síðastliðinn, fimm árum eftir að kvörtun Heiðars var lögð fram. Í því kemur meðal annars fram að hann hafi sjálfur, strax við upphaf athugunar hans í lok árs 2010, staðnæmst sérstaklega við þá leið sem farin var í lögum þegar gjaldeyrishöftin voru tekin upp haustið 2008. Þar var Seðlabanka Íslands fengin heimild til að gefa út, að fengnu samþykki ráðherra, reglur um gjaldeyrismál. Hinar eiginlegu efnisreglur um gjaldeyrishöftin voru í reglunum og brot gegn þeim gátu varðað refsingum. Umboðsmaður taldi vafa leika á því að þetta fyrirkomulag uppfyllti þær kröfur sem leiða af reglum um lögbundnar refsiheimildir og skýrleika refsiheimilda.
Til viðbótar komu síðan atriði sem lutu að samþykki ráðherra á reglunum og birtingu þess, en eins og fram hefur komið, þá felldi Seðlabankinn niður 23 mál á dögunum, þar sem sérstakur saksóknari telur reglurnar gallaðar. Enginn einstaklingur hefur fengið dóm fyrir brot á gjaldeyrislögum, frá því fjármagnshöft voru lögfest í nóvember 2008, eða fyrir tæpum sjö árum.
Í samráði við fjármálaráðuneytið
Þá gagnrýnir Umboðsmaður einnig stofnun ESÍ, sem heldur utan um miklar eignir Seðlabankans, og telur lagalegan grundvöll stofnunar þess félags vera á veikum grunni.
Kjarninn greindi frá því 10. október að tilfærsla á verkefnum við umsýslu og sölu eigna Seðlabanka Íslands til ESÍ hafi verið gerð í samráði við fjármálaráðuneytið undir lok árs 2009, þegar Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra.
Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum var ákvörðunin um að færa umsýslu og sölu eigna sem bankinn sat uppi með eftir hrunið yfir í ESÍ tekin undir lok árs 2009. Utanaðkomandi sérfræðingar voru fengnir til að gefa álit sitt á gerningnum og héldu kynningu um málið fyrir fjármálaráðuneytið í desember 2009. Í kjölfarið var ákveðið að flytja verkefnin til ESÍ.
Óljós lagalegur grundvöllur
Umboðsmaður Alþingis sendi fjármála- og efnahagsráðherra, bankaráði Seðlabanka Íslands, seðlabankastjóra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bréf 2. október þar sem hann gerði grein fyrir athugun sem hann hefur unnið að á síðustu árum vegna atriða tengdum rannsóknum Seðlabanka Íslands vegna gruns um brot á reglum um fjármagnshöft.
Kemur fram í bréfinu að lagalegur grundvöllur Seðlabankans til aðgerða gegn einstaklingum og fyrirtækjum, vegna meintra brota gegn gjaldeyrislögum, hafi verið um margt óljós. Í bréfinu áréttar umboðsmaður einnig að þess verði gætt í framtíðinni að vanda betur til lagasetningar um sambærileg mál, sérstaklega um framsetningu refsiheimilda og þar með um grundvöll athugana og rannsókna stjórnvalda þegar grunur vaknar um brot sem sætt geta viðurlögum.