„Skjólstæðingur minn hefur starfað eftir ströngum aga þagnaðareiðs, í áratugi. Það er ekki að fara breytast hér í dómsalnum.“ Svona hófst málsvörn Vincent Asuro, áttræðs Bandaríkjamanns af ítölskum ættum, sem undanfarnar vikur hefur verið í dómsalnum í Brooklyn, að svara fyrir alvarlegar ásakanir sem á hann eru bornar með ákæru saksóknarans í New York. Asuro tjáði sig ekki sjálfur heldur lögmaður hans, John Meringolo, sem jafnframt er aðstoðarprófessor við lagadeild Pace Háskólans.
Hughrifin af Goodfellas
Hann sagðist sérstaklega hafa áhyggjur af einu, þegar réttarhöldin hófust. Það væri sú staða, að dómurinn yrði fyrir hughrifum vegna þess að málið byggði á ásökunum um að Asuro væri tengdur við glæpi sem frægar kvikmyndir hafa verið gerðar um, og bækur sömuleiðis. Einna helst Goodfellas, meistaraverk Martin Scorsese frá árinu 1990, og bókin Wiseguys eftir Nicholas Pileggi. Þar er saga glæpamannsins Henry Hill, sem síðar vann með yfirvöldum að upprætingu skipulagðrar glæpastarfsemi, rakin í gegnum hörðustu og ofbeldishneigðustu mafíu New York borgar á sjöunda og áttaunda áratug síðustu aldar. Lucchesse fjölskyldan er miðpunkturinn í henni en hún hafði einnig tengsl við aðrar klíkur og fjölskyldur þar sem ítalskættaður kjarni réð ríkjum með ofbeldi og kúgunum. Á meðal þeirra var Bonnano fjölskyldan. Asuro stýrði henni, samkvæmt máli yfirvalda. Hann er sakaður um morð, hrottalegt ofbeldi, stýringu á viðskiptum í svartamarkaðshagkerfi borgarinnar, og skipulagningu á ránum.
Ítalski mafíuheimurinn kemur upp á yfirborðið
Asuro var handtekinn í janúar í fyrra, ásamt fjórum öðrum, og hefur verið í haldi lögreglu síðan. Hann hefur lítið sagt í yfirheyrslum, en málið gegn honum þykir vel undirbyggt, í það minnst eins og því er lýst af þeim sem sitja réttarhöldin. Ástæða þess að Asuro var handtekinn í upphafi var skipulagningin á hinu fræga Lufthansa ráni á JFK flugvellinum 11. desember 1978. Þá komust ræningjar undan með fimm milljónir Bandaríkjadala í reiðufé og skartgripi sem voru metnir á 875 þúsund Bandaríkjadali. Að núverði er þetta meira en 20 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur nærri 2,5 milljörðum króna. Þetta er enn þann dag í dag, stærsta rán sem framið hefur verið í Bandaríkjunum í dögunni. Ræningjarnir eru allir meira og minna dánir í dag, þar sem einn þeirra sem var á meðal ræningjanna, Jimmy Burke að nafni - fyrirmynd karaktersins sem Robert De Niro leikur í Goodfellas - lét drepa flesta þá sem komu að ráninu til að fela slóð sína og hindra að nokkur gæti kjaftað frá. Burke lést úr lungnakrabbameini í fangelsi.
Asuro fór huldu höfði í mörg ár eftir ránið, en leiddist smám saman aftur út í glæpalífið.
Inn að beini
Saksóknarinn í málinu, Lindsey Gerdes, hefur lýst Asuro sem glæpamanni „alveg inn að beini“. Þáttur hans í ráninu er sagður snúa að skipulagningunni og því að koma peningunum sjálfum undan og þvætta þá í gegnum fyrirtækjarekstur. Peningarnir voru órekjanlegir og hafa aldrei fundist, enda má gera ráð fyrir að þeim hafi verið eytt hratt og örugglega.
Eins og við var að búast fyrir fram, hefur Asuro ekki látið mikið uppi um hans gjörðir fyrir áratugum. Hann neitar alfarið sök, og vitnin í málinu, þar á meðal mennirnir sem handteknir voru á sama tíma og Asuro, eru ekki búnir að segja til hans beint. Eitt vitni, Gaspare Valenti, frændi Asuro og samstarfsmaður á mafíuárunum, hefur þó tengt Asuro við Lufthansa-ránið og sagt hann hafa komið að skipulagningu þess. Valenti hefur þegar gert samkomulag við bandarísk yfirvöld um að vinna með þeim að upprætingu skipulagðrar glæpastarfsemi.
Gögn, og úrvinnslu úr gömlum málsgögnum með nútímaaðferðum, svo sem myndgreiningu og DNA prófum, eru þó það sem saksóknarinn byggir mál sitt á að miklu leyti. Tæplega 37 árum eftir ránið fræga.
Beinar sannanir fyrir ofbeldi og morðum liggja ekki fyrir, en boðað hefur verið að vitni munu styðja mál saksóknara enn betur við málareksturinn, en þau hafa ekki komið öll enn í vitnastúkuna. Eitt er vafalítið öruggt, sé mið tekið af lýsingum þeirra sem hafa fylgst með réttarhöldunum. Asuro mun sitja með stingandi augnaráð í sæti sínu á meðan vitnin verða leidd fyrir réttinn, eitt af öðru.