Ekkert bendir til að útflutningur afurða frá Íslandi til Rússlands hafi verið vanmetinn í tölum Hagstofunnar. Er það niðurstaða sérstakrar rannsóknar Hagstofunnar á hlutdeild Hollands í vöruútflutningi, en hún hefur aukist mjög á undanförnum árum.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar fyrir árið 2014 fór nærri 30 prósent af öllum útflutningi Íslands til Hollands, þar sem stærsta skipahöfn Evrópu er staðsett í Rotterdam. Í ágúst síðastliðnum tilkynnti Hagstofan að hún myndi rannsaka áreiðanleika talnanna. Málið kom upp í kjölfar innflutningsbanns Rússa á vörur frá Íslandi í ágúst síðastliðnum. Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hafði þá sagt að tölur Hagstofunnar gefi ekki rétt mynd af útflutningi sjávarafurða til Rússlands þar sem stór hluti sjávarafurða séu tollskráð í Hollandi en flutt áfram til Rússlands. SFS sagði að um 40 prósent af verðmætum sjávafafurða til Hollands fari áfram til Rússlands og um 80 prósent af verðmætum til Litháens endi í Rússlandi.
Í frétt Hagstofunnar um rannsókn á útflutningi til Hollands (Niðurlands) segir að erfitt hafi verið að finna endanlegt ákvörðunarland fyrir meirihluta útflutnings til Hollands, þar sem mikilvægir útflutningsaðilar á iðnaðarvöru, aðallega áli og álafurðum, búi ekki yfir upplýsingunum. Því sé ljóst að flutningur um Rotterdam hafi mikil áhrif á niðurstöðu um landaskiptingu útflutnings. En í tilviki útflutnings á sjávarafurðum hafi hins vegar í flestum tilvikum verið hægt að fá upplýsingar um endanlegt ákvörðunarlands. Niðurstaða Hagstofunnar er að heildarútflutningur, sem áður var metinn um 30 prósent árið 2014, lækkar um 6 prósent eða 39 milljarða króna. Ekkert bendir hins vegar til að útflutningur til Rússlands hafi verið vanmetinn.
Rússland var árið 2014 sjötta stærsta viðskiptaland Íslands og helsti kaupandi makríls og loðnu.
„Í framhaldi af viðskiptabanni Rússlands á íslenskar afurðir kom fram umræða um hvort að útflutningstölur sýndu rétta mynd af viðskiptum við Rússland, þ.e. hvort útflutningur til Rússlands sem fer í gegnum Rotterdam sé skráður sem útflutningur til Niðurlands.
Eftir viðræður við helstu útflutningsaðila og skoðun talna fyrirtækjanna sjálfra
hefur komið í ljós að engin meiriháttar frávik eru á þeim tölum sem Hagstofan
hefur áður gefið út um útflutning til Rússlands og þeim tölum sem fyrirtækin hafa
yfir að búa. Í flestum tilvikum hefur raunin verið sú að útflytjendur hafa flutt
sjávarafurðir beint frá Íslandi til Rússlands því rússneskir innflytjendur hafa gert þá
kröfu að með íslenskum sjávarafurðum fylgi heilbrigðisvottorð frá viðurkenndum
stjórnvöldum. Sé fiskur sendur í geymslu í Rotterdam þá er ekki hægt að fullyrða
að annar fiskur, með aðra eða enga vottun, lendi ekki með í sendingu frá Rotterdam
til Rússlands og það vilja rússneskir innflytjendur forðast. Rétt er að taka fram að
kröfur rússneskra innflytjenda til vottorða geta verið mismunandi og mögulegt er
að íslenskar sjávarafurðir endi í Rússlandi með öðrum leiðum en beinni sendingu,
en sé tekið mið af sölutölum fyrirtækja þá er sú upphæð óveruleg,“ segir í skýrslu Hagstofunnar sem lesa má hér.