Eins og áður hefur verið vikið að á þessum vettvangi, er mikilvægt fyrir Ísland að fylgjast náið með gangi mála þegar kemur að mengun í hafinu. Ísland á mikið undir því að hafið sé hreint og lífræki ekki ógnað.
Eitt af því sem nauðsynlegt er að rannsaka betur eru áhrif hlýnunar jarðar af mannavöldum á náttúrulega þróun í hafinu. Haraldur Sigurðsson, prófessor, gerði þetta að umtalsefni á góðri bloggsíðu sinni í nótt, og velti þar fyrir sér dæmum erlendis frá, einkum frá Norður-Ameríku, þar sem þorskstofnar hafa hrunið sums staðar. Fræðimenn telja að breyting á hitastigi í hafinu sé að hafa mikil áhrif á þróun mála. Haraldur spyr í lok færslunnar; hvaða áhrif hefur hraðvaxandi hnattræn hlýnun á þorskstofna Íslendinga?
Það er vissara að gefa þessu gaum hér, og styrkja sjálfstæðar rannsóknir eins mikið og myndarlega og hægt er.