InDefence samtökin segja stjórvöld hafa beitt blekkingum þegar þau kynntu niðurstöðuna sem snýr að stöðugleikaframlagi slitabúa föllnu bankanna, í samhengi við framkvæmd áætlunar um losun hafta. Þetta kemur fram í umsögn InDefence um mat á undanþágubeiðnum slitabúa.
Gert er ráð fyrir að slitabúin greiði 379 milljarða króna í stöðugleikaframlag, en stjórnvöld hafa þó tiltekið fleiri atriði í sinni kynningu á málinu, og meta framlagið á 856 milljarða. Þetta telja InDefence samtökin villandi. „Þessi vandi byggist á því að kröfuhöfum slitabúanna verður hleypt út úr höftum með allt að 500 milljarða króna í erlendum gjaldeyri. Fyrir vikið sitja almenningur, fyrirtæki og lífeyrissjóðir á Íslandi eftir með mikla efnahagslega áhættu og verða að treysta á bjartsýna hagvaxtarspá Seðlabanka Íslands. Standist hún ekki, munu lífskjör á Íslandi skerðast og áframhaldandi fjármagnshöft til margra ára. Það er óásættanlegt að fyrirhugaðar aðgerðir tryggi hagsmuni kröfuhafa, en skapi efnahagslega áhættu fyrir heimili og fyrirtæki á Íslandi,“ segir í umsögn InDefence.
Í umsögninni segir að stjórnvöld leggi ranglega áherslu á meintar tekjur sem stöðugleikaskilyrðin skila þjóðarbúinu. „Samkvæmt kynningu stjórnvalda skila stöðugleikaskilyrðin 856 milljörðum króna til að takast á við eignir slitabúanna upp á 815 milljarða sem ógna efnahagslegum stöðugleika á Ísland. Því miður er þetta afar villandi framsetning. Stjórnvöld leggja ranglega áherslu á meintar tekjur sem stöðugleikaskilyrðin skila þjóðarbúinu,“ segir í umsögninni.
Þá er bent á það, að forsendur Seðlabanka Íslands, fyrir veitingu undanþágu, séu bjartsýnar og þá ekki síst hagvaxtarforsendur. Gert sé ráð fyrir miklum hagvexti næstu árin, langt umfram alþjóðlega þróun. Að undanförnu hafi hagvaxtarspár erlendis verið endurskoðaðar niður á við, og það sé einkennilegt ef Ísland muni standa alveg út úr miðað við þá þróun.