Það er „gleðidagur“ hjá þeim Samherjafrændum í dag, Kristjáni Vilhelmssyni útgerðarstjóra og Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra, og jafnframt stærstu eigendum fyrirtækisins, ef marka má stutta færslu á vef Samherja. Þar eru þeir frændur brosandi við borða þar sem á stendur; ekkert að fela („Nothing to hide“).
Tilefnið er það að nú hefur embætti skattrannsóknarstjóra tilkynnt embætti sérstaks saksóknara um það, að ekki sé ástæða til aðgerða gegn Samherja, en sérstakur saksóknari hafði áður fellt niður mál sem Seðlabanki Íslands kærði vegna gruns um meint brot Þorsteins Más og annarra starfsmanna bankans gegn gjaldeyrislögum. Ekki reyndist fótur fyrir þessum ásökunum seðlabankans, en upphaf málsins má rekja til umfangsmikilla húsleita í höfuðstöðvum Samherja á Akureyri og Reykjavík vorið 2012.
Í frétt sem birtist á vef Samherja í dag er tilkynnt um þessa niðurstöðu skattrannsóknarstjóra, og jafnframt tekið fram að nú hafi starfsmenn fyrirtækisins verið hreinsaðir af ásökunum sem ættu ekki við nein rök að styðjast. „Við erum því mjög ánægðir með niðurstöðuna enda er hún í samræmi við það sem við höfum alltaf sagt, að starfsfólk Samherja hafi unnið vel og eftir bestu samvisku þrátt fyrir erfiðar kringumstæður hin síðari ár. Aldrei hefur verið farið jafn nákvæmlega og ítarlega í gegnum starfsemi nokkurs fyrirtækis eins og í þessu máli. Niðurstaðan er að starfsfólk Samherja og dótturfélaga okkar hafa unnið störf sín af trúmennsku og heiðarleika. Er því búið að hreinsa starfsfólk Samherja af ásökunum sem fram komu í kærum Seðlabankans til embættis sérstaks saksóknara,“ segir í bréfi Þorsteins Más Baldvinssonar til starfsmanna.
Í bréfi Þorsteins Más segir ennfremur að Seðlabankinn hafi frá upphafi haft rangt við, ávirðingarnar hafi ekki átt við rök að styðjast og að engin lög hafi verið brotin, eins og niðurstaða rannsókna og yfirferðar sýni nú.