Um fjögur prósent íbúða í Reykjavík eru legiðar til íbúðagistingar í skammtímaleigu, oftast í gegnum síðuna Airbnb.com, og er hlutfallið hátt miðað við aðrar borgir. Áhrif á fasteignamarkaðinn eru þau að í ýmsum hverfum Reykjavíkur er fasteignaverð hærra vegna aukinnar eftirspurnar eftir húsnæði undir íbúðagistingu, en fjölgun hótelherbergja hefur ekki haldið í við fjölgun ferðamanna sem hafa því leitað annarra gistimöguleika.
Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar skýrslu sem unnin var á Háskólanum í Bifröst um umfang íbúðagistingar í ferðaþjónustu á Íslandi. Fram kemur að alls eru um 3.400 herbergi og íbúðir skráðar á Airbnb.com, þar af 1.900 herbergi og íbúðir í Reykjavík. Samkvæmt Sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu eru einungis þrettán prósent af þeim með skráð leyfi til íbúðagistingar. Það gera um 250 leyfi.
Skýrslan var unnin fyrir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp til breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald á yfirstandandi þingi og verður skýrslan höfð til hliðsjónar í þeirri vinnu, að því er fram kemur á vef ráðuneytisins. Í skýrslunni segir að umrædd lög nái ekki nægilega vel utan um nýjan veruleika í íbúðagistingu, einfalda þurfi leyfisveitngaferlið og að reglur um skattlagningu séu ekki skýrar.