Verslanir IKEA í Svíþjóð og Þýskalandi hafa vart undan að selja rúm, dýnur og sængur vegna sögulegs fjölda flóttamanna sem komið hafa til landanna á undanförnum mánuðum. Ef fram fer sem horfir munu birgðir klárast í mörgum verslunum, samkvæmt frétt Bloomberg um málið.
IKEA hefur útvegað sveitafélögum í Svíþjóð rúm og dýnur til handa hælisleitendum. Um 120 þúsund manns hafa leitað hælis í Svíþjóð í ár. Þýskaland hefur verið vinveittast flóttafólki sem ferðast hefur til Evrópu, margir hverjir frá stríðsátökum í Sýrlandi. Miðað við íbúafjölda hefur Svíþjóð aftur á móti tekið á móti flestum hælisleitendum, samkvæmt umfjöllun fjölmiðilsins Quartz.
Talið er að alls hafi um 700 þúsund flúið hörmungar í heimalandi sínu og lagt leið sína til Evrópu á þessu ári, frá Sýrlandi, Erítreu, Afganistan, Írak og fleiri löndum. Evrópuríkin hafa, vægast sagt, átt í pólitískum erfiðleikum með að taka á móti fólkinu og stefna ríkja álfunnar hefur á tíðum verið gerólík. Kólnandi veður hefur ekki hægt á straumi flóttafólks til Evrópu til þessa, og óttast margir að ástandið verði enn erfiðara þegar vetur skellur á af fullum þunga í álfunni. „Veður versnar hraðar heldur en geta leiðtoga til að taka mikilvægar ákvarðanir,“ segir í ítarlegri umfjöllun Guardian um stöðu mála.