Gunnar Hansen, leikari, er látinn 68 ára að aldri. Gunnar barðist við krabbamein í brisi. Fréttastofa AP greinir frá andláti Gunnars í dag.
Gunnar var þekktastur fyrir hlutverk sitt sem illmennið Leðurfés í kvikmyndinni Texas Chain Saw Massacre. Myndin kom út árið 1974 og er Leðurfés að mati margra en þann dag í dag eitthvert rosalegasta illmenni kvikmyndasögunnar.
Árið 2013 gaf Gunnar út bókina Chain Saw Confidential þar sem hann fjallaði um hvað gerðist bakvið tjöldin við gerð myndarinnar.
Gunnar fæddist í Reykjavík en flutti ungur til Bandaríkjanna. Hann stundaði við Háskólann í Texas. Þar lærði hann ensku og Skandinavíufræði. Hann bjó í Maine í Bandaríkjunum í 40 ár, þar sem hann starfaði sem leikari og rithöfundur. Gunnar var í sambúð með Betty Tower.
Þegar Gunnar lést vann hann að myndinni Death House, að því er AP fréttastofa hefur eftir umboðsmanni hans. Gunnar var framleiðandi og höfundur myndarinnar en samkvæmt síðunni Imdb.com fjallar myndin um það þegar leynibyrgi stjórnvalda verður miðpunktur hræðilegasta fangelsisflótta í sögu mannkyns. Stefnt er að útgáfu myndarinnar á næsta ári.
Árið 2013 birtist áhugavert viðtal við Gunnar á vefsíðunni Nörd Norðursins. Gunar var þá staddur á hryllingsmyndahátíðinni Mad Monster Party í Bandaríkjunum og ræddi við blaðamann Nörds Norðursins. Viðtalið má lesa hér.