Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sagði það ekki rétt sem fram kom á forsíðu Fréttablaðsins að íbúð í Hlíðarhverfinu hafi „verið sérútbúin fyrir þessar athafnir.“ Þetta kom fram í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 og er vitnað til ummæla Öldu í frétt á vef RÚV.
Hún sagði jafnframt að ekki hefði verið tekin afstaða til þess hvort gerð hafi verið mistök þegar ekki var krafist gæsluvarðhalds yfir tveimur mönnum sem hafa verið kærðir fyrir kynferðisbrot.
Hart hefur verið sótt að lögreglu á samfélagsmiðlum vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins í morgun „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“. Í fréttinni kom fram að lögregla hefði farið í húsleit í íbúð í Hlíðarhverfinu og að hún hefði verið „búin tækjum til ofbeldisiðkunar,“ eins og sagði í frétt blaðsins.
Tveir menn hafa verið kærðir fyrir kynferðisbrot, sem samkvæmt kærum áttu sér stað 19. september og 14.október.
Mikil umræða hefur verið um þessi mál á samfélagsmiðlum í dag, undir #almannahagsmunir. Þá var mótmælt við lögreglustöðina í Reykjavík, þar sem krafa fólks var skýr, um að tekið yrði fastar á kynferðisbrotamálum og gæsluvarðhalds krafist í ofangreindu máli.