Einn stærsti óvissuþátturinn varðandi verðbólguþróun á Íslandi er þróun á olíu- og hrávöruverði á heimsmarkaði, að sögn Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands. Hann óttast að dragi úr þeirri miklu verðlækkun sem verið hefur á olíu undanfarið „þótt ekki væri annað en að þetta fari að hætta að lækka, þá dragist tjöldin frá og við sitjum uppi með þennan vaxandi innlenda verðbólguþrýsting. Fari þetta í fyrra horf þá myndi það gerast ennþá hraðar. Þetta er í mínum huga nokur áhættuþáttur.“ Þetta kom fram í máli Þórarins á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands gaf skýrslu.
Ásamt Þórarni sátu Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Katrín Ólafsdóttir, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík og peningastefnunefndarmaður.
Mikil innlend verðbólga
Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti sína um 0,25 prósent 4. nóvember síðastliðinn. Þeir eru nú 5,75 prósent og var um að ræða þriðju stýrivaxtahækkun bankans á þessu ári. Stýrivextir eru helsta tæki Seðlabanka Íslands til þess að halda verðbólgu í skefjum. Ef þensla er í samfélaginu og verðbólgan há, þá hækkar Seðlabankinn stýrirvextina.
Verðbólga hefur hins vegar ekki verið há undanfarið. Þvert á móti hefur verðbólga verið undir 2,5 prósent markmiði Seðlabankans í næstum tvö ár. Ráðandi þáttur í því er að innflutt verðbólga hefur dregist mjög skarp saman. Innlend verðbólga er hins vegar á bilinu fjögur til fimm prósent.
Í Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem birt voru samhliða síðustu vaxtaákvörðun, er fjallað um hvað valdi því að vextir séu hækkaðir þrátt fyrir að verðbólga sé lág. Þar segir m.a.: „Samsetning verðbólgunnar minnir þó töluvert á stöðuna á árunum 2003-2005 þegar mæld verðbólga var lítil m.a. vegna þess að gengi krónunnar hækkaði og innflutt verðbólga var lítil á sama tíma og innlendur verðbólguþrýstingur, sem kom m.a. fram í miklum hækkunum á húsnæðisverði, var töluverður. Þegar gengi krónunnar gaf eftir árið 2006 jókst verðbólga hratt. Í ljósi mikils verðbólguþrýstings frá vinnumarkaði núna og vaxandi framleiðsluspennu í þjóðarbúskapnum eru því nokkrar líkur á að mæld verðbólga endurspegli ekki að fullu þann undirliggjandi verðbólguþrýsting sem er fyrir hendi. Horfur eru því á að verðbólga aukist á ný þegar áhrif lækkunar alþjóðlegs vöruverðs fjara út.“
Heimsmarkaðsverð hefur lækkað um 60 prósent
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hríðfallið frá því um mitt ár 2014. Í júní 2014 kostaði tunna af Brent-olíu 115,9 dali. Í dag kostar hún um 47,3 dali, og hefur því lækkað um 60 prósent.
Þórarinn sagði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að olíu- og hrávöruverð væri einn af stærstu óvissuþáttunum í verðbólguþróun og lykilatriði í að skilja hana. „Ég óttast að fari þetta að breytast, þótt ekki væri annað en að þetta fari að hætta að lækka, þá dragist tjöldin frá og við sitjum uppi með þennan vaxandi innlenda verðbólguþrýsting. Fari þetta í fyrra horf þá myndi það gerast ennþá hraðar. Þetta er í mínum huga nokkur áhættuþáttur.“ Hann sagði einnig að það væri ekki útilokað að verðið á olíu- og hrávörumörkuðum haldi áfram að lækka, þótt það muni líklega ekki lækka jafn mikið og það hefur verið að gera. Þróun í Kína gæti leitt til þess.