Greining ID (InDefence) á greiðslujafnaðarvandanum virðist byggjast á „grundvallarmisskilningi á eðli hans og þeirri skoðun að nánast allar skuldir sem þurfi að endurfjármagna á gjalddaga“ feli í sér yfirvofandi gjaldeyrisútstreymi. Lykilatriði er að Ísland mun koma út úr þeim umbreytingum á efnahagsreikningi þjóðarbúsins sem eiga sér stað í slitaferli samkvæmt nauðasamningum fallinna fjármálafyrirtækja með hagstæðari skuldahlutföll en landið hefur búið við um áratuga skeið, hvort heldur litið er á vergar eða hreinar skuldir.
Þetta kemur fram í svari Seðlabanka Íslands við umsögn InDefence samtakanna um stöðugleikaframlag slitabúa föllnu bankanna. Samtökin gagnrýndu stjórnvöld og Seðlabanka Íslands harðlega fyrir að gefa of mikið eftir, í samningum við kröfuhafa. Gert er ráð fyrir að slitabúin greiði 379 milljarða í stöðugleikaframlag, en umfangi verði framlagið nálægt 500 milljörðum, beint eða óbeint. InDefence samtökin segja stjórnvöld og Seðlabankann gefa kröfuhöfum um 500 milljarða afslátt með þessum hætti, sem sé á kostnað almennings á Íslandi.
Í svari Seðlabanka Íslands, við umsögn InDefence, segir að nauðasamningarnir muni leysa úr þeim greiðslujafnaðarvanda, sem sé fyrir hendi, með fullnægjandi hætti.
Í samantekt seðlabankans, í orðsendingu til fjölmiðla, segir enn fremur: „Að lokum er rétt að taka fram að áætlunin um losun fjármagnshafta miðar ekki að því að uppgjör slitabúanna fjármagni aðra liði áætlunarinnar. Slíkt færi í bág við þau sjónarmið sem lágu að baki stöðugleikaskatti sem voru að slitabúin sjálf yrðu að leysa greiðslujafnaðarvanda og vanda fyrir fjármálakerfið sem af slitum þeirra stafar. Það virðist vera sjónarmið InDefence að nota eigi slitin til þess að ná markmiðum sem ganga lengra en að tryggja stöðugleika við slitin. Efast má um lagalegan grundvöll þess,“ segir í samantektinni.
InDefence samtökin hafa tekið saman fimmtán ítarlegar spurningar um haftalosunarferlið, þar sem meðal annars er spurt hvernig standa eigi að því að losa um höftin þegar kemur að almenningi að Íslandi. Þá er ennfremur spurt út í mörg atriði, sem snúa að því hvernig eignir slitabúanna hafa verið metnar, og hvernig upphæðir eru fengnar fram.