Alls fluttu 3.210 íslenskir ríkisborgarar frá Íslandi á fyrstu níu mánuðum ársins 2015, eða um 1.130 fleiri en fluttu til þess. Brottfluttir íslenskir ríkisborgara umfram heimkomna hafa einungis fimm sinnum verið fleiri samkvæmt gagnagrunni Hagstofu Íslands, sem nær til 1961. Það voru árin 1970, 1995, 2009, 2010 og 2011. Öll þau ár komu hins vegar í kjölfar kreppuára, þ.e. ára þar sem samdráttur ríkti í íslensku hagkerfi. Það er ekki raunin nú, þar sem hagvöxtur hefur verið hérlendis frá árinu 2011. Því er ekki um kreppuflutninga að ræða. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.
Þar er rætt við Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann segir að það virðist eitthvað djúpstæðara á ferðinni og að vísbendingar séu um að margt háskólafólk flytji úr landi. Batinn á vinnumarkaði, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, hafi ekki skilað sér til menntaðs fólks nema að takmörkuðu leyti. „Þá má minna á að samkvæmt Hagstofunni er munur á ráðstöfunartekjum menntaðs og ómenntaðs fólks hér einn sá minnsti í Evrópu,“ segir Ásgeir við Morgunblaðið.
Hann segir rannsóknir sýna að það sé einkum ungt fólk sem hleypi heimdraganum og leiti betri kjara erlendis. Því sé mögulegt að of mikill launajöfnuður sé orðinn vandamál þegar komi að því að halda ungu fólki í landinu.
Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir svipaða sögu við Morgunblaðið. Vísbendingar séu að margir finni ekki atvinnu sem henti námi þeirra og bakgrunni. Til dæmis sé nokkur fjöldi háskólamenntaðra nú á atvinnuleysisskrá. Í september voru 1.207 atvinnulausir með háskólapróf af alls 4.487 atvinnulausum, eða rúmur fjórðungur.
Þessi þróun á sér stað á sama tíma og það er sögulega mikill hagvöxtur á Íslandi. Hann var 5,2 prósent á fyrri helmingi þessa árs og hefur ekki mælst meiri á fyrri helmingi árs síðan 2007. Greining Íslandsbanka sagði í september síðastliðnum að „ljóst er að bætt fjárhagsstaða heimilanna, m.a. vegna vaxtar í kaupmætti ráðstöfunartekna, er að skila þessum mikla vexti".