Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið, að tillögu
Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, að stofna tvo sjóði,
Markaðsþróunarsjóð og Áfangastaðasjóð, með það að markmiði að koma á reglulegu
millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll. Ragnheiður Elín
Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur fengið það hlutverk að
undirbúa stofnun sjóðanna.
Heildarupphæð beggja sjóða verður allt að 300 milljónir króna árlega í þrjú ár. Sjóðirnir eiga að „virka hvetjandi á erlenda sem innlenda aðila og framlag þeirra vera viðbót við framlag annarra þróunaraðila“. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps sem forsætisráðherra skipaði í maí síðastliðnum og hafði það hlutverk að koma með tillögur um hvernig koma mætti á reglulegu millilandaflugi á aðra flugvelli en Keflavík.
Í fréttatilkynningu sem forsætisráðuneytið hefur sent frá sér vegna þessu segir að gert sé „ráð fyrir að framlag ríkisins til sjóðanna muni skila sér til baka í formi skatttekna en ætla má að beinar skatttekjur af tveimur flugum á viku allt árið yrðu um 300-400 milljónir króna árlega sem ríkissjóður myndi njóta áfram að loknu þriggja ára starfstímabili sjóðana“.
Stofnun sjóðanna byggir á skýrslu starfshóps sem forsætisráðherra skipaði í maí síðastliðnum til að koma með tillögur um hvernig koma mætti á reglulegu millilandaflugi á aðra flugvelli en Keflavík. Markmið ríkisstjórnarinnar er að sjóðirnir hafi hvetjandi áhrif á erlenda sem innlenda aðila. Framlag sjóðanna á að vera viðbót við framlag annarra þróunaraðila og greiðast eftir að flug er hafið, nánar tiltekið þegar lágmarkstímabili hefur verið náð og svo mánaðarlega eftir það.
Starfshópurinn var þannig skipaður: Matthías Páll Imsland, tilnefndur af forsætisráðuneytinu, formaður starfshópsins, Arnheiður Jóhannsdóttir, tilnefnd af Eyþingi, Björn Ingimarsson, tilnefndur af Austurbrú, Elín Árnadóttir, tilnefnd af Isavia, Ingvar Örn Ingvarsson, tilnefndur af Íslandsstofu, María Hjálmarsdóttir, tilnefnd af Austurbrú, Valgerður Gunnarsdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, tilnefndur af Markaðsstofu Norðurlands og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, tilnefnd af innanríkisráðuneytinu.