Össur Skarphéðinsson, fyrrum formaður
Samfylkingarinnar og þingmaður hennar, segir að miðað við pólitíska stöðu
dagsins í dag sé hann til í að bjóða hverjum sem er upp á veðmál um að
ríkisstjórnin muni falla í næstu kosningum. Hann segist telja að
stjórnarandstöðuflokkarnir eigi að lýsa yfir, að vinni þeir meirihluta í næstu kosningum muni þeir mynda
saman ríkisstjórn. Ekki væri um kosningabandalag að ræða heldur breiðfylkingu um að breyta stjórnarskránni, kjósa um
aðildarumsókn og leysa deilur um fiskveiðistjórnun og hálendið í eitt skipti
fyrir öll í þjóðaratkvæðagreiðslu. Össur segist vel geta hugsað sér „að starfa
með sjóræningja fyrir borðsendanum í stjórnarráðinu."
Þetta kemur fram í viðtali við Össur í Fréttablaðinu í dag.
Þeir sem ekki fiska þurfa að taka pokann sinn
Í viðtalinu ræðir Össur einnig afleita stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum, en flokkurinn mældist með 8,2 prósent fylgi í nýrri könnun Fréttablaðsins. Hann hefur stöðugt mælst með mjög lágt fylgi þorra þessa kjörtímabils eftir að flokkurinn beið afhroð í kosninginum 2013, þegar hann fékk 12,9 prósent atkvæða.
Aðspurður hvort það þurfi að skipta um formann í Samfylkingunni segir Össur að það sé ekki hægt að setja alla stöðuna á herðar Árna Páli Árnasyni. Umbúðarlaust sagt vanti kraft og áræðni í flokkinn. „Síðustu átján mánuðirnir í lífi ríkisstjórnar Jóhönnu eiga mikinn þátt í núverandi stöðu. Staða stjórnarskrármálsins þegar Árni Páll tók við á kannski mestan. Í baksýnisspeglinum sýnist hún næstum hafa verið óviðráðanleg. En langvarandi erfiðleikar hjá flokki vekja spurningar. Staðan sem nú er uppi kallar á endurmat á vinnuaðferðum forystu og þingflokks en bak við formann er stjórn flokksins og að auki framkvæmdastjórn. Stjórnmál í dag eru forystustjórnmál. Gamall og litríkur leiðtogi, Jón Baldvin, hafði þá möntru að karlinn í brúnni yrði að fiska. Ella þyrfti hann taka pokann sinn. Ég var sjálfur látinn taka minn poka og felldur í kosningu af því að stabbinn í flokknum var stórhuga og taldi að 32 prósent væri ekki nóg. “
Píratar pólitískar frænkur og frændur Samfylkingar
Össur segir núverandi ríkisstjórn alls ekki hafa staðið sig illa. Það blasi hins vegar við að það sé að skapast tækifæri til að mynda ríkisstjórn um jafnræði, jöfnun tækifæra, meira vald til fólks, breytingar á stjórnarskránni, þjóðaratkvæðagreiðslur og breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þessar hugsjónir njóti í dag fylgis meirihluta Íslendinga. Þótt Samfylkingin hafi tímabundið steytt á skeri þá gleðji þessi staða hann.
Össur segir Pírata og Samfylkingarfólk í grundvallaratriðum sammála um flest mál. Hann muni varla eftir þingmáli frá þeim sem hann gat ekki stutt og að þeir hafi stutt mörg mál Samfylkingarinnar. „Vitaskuld þykir mér súrt í broti að minn flokkur sitji eftir en í þeirri stöðu get ég ekki annað en glaðst yfir að það skuli vera Píratar, sem ég lít á sem pólitíska frændur og frænkur, en ekki hægri flokkur, sem rífur til sín fylgi.[...]Eftir bankahrunið og svikin loforð um verðtryggingu og þjóðaratkvæði um aðildarumsóknina treysta Íslendingar ekki lengur stjórnmálunum fyrir framtíðinni. Þeir vilja ráða henni sjálfir.
Í dag er staðan þannig að í öllum efnum sem varða lýðræðislegar umbætur og einnig þeim sem varða jöfnuð eru allir flokkar stjórnarandstöðunnar í meginatriðum sammála. Ég tel að fyrir kosningar eigi þessir flokkar að lýsa yfir, að vinni þeir meirihluta muni þeir mynda saman ríkisstjórn, sem leggur höfuðáherslu á að breyta stjórnarskránni þannig að fólkið fái meiri völd. Það er ekki nóg að minnihluti Alþingis geti vísað umdeildum málum í þjóðaratkvæði heldur verður þjóðin sjálf að geta sett mál í þjóðaratkvæðagreiðslu ef tiltekinn fjöldi lýsir við þau stuðningi. Það, ásamt ákvæði um sameign á þjóðarauðlindum, eru fyrir mér aðalatriðin. Sú ríkisstjórn á jafnframt að lýsa yfir ótvíræðum vilja um að þjóðin fái sjálf að skera úr deilunum sem hafa slitið hana í sundur, um hvernig á að haga stjórn fiskveiða, hvort eigi að halda áfram viðræðum um aðild að ESB og um framtíð hálendisins. Þjóðin velur þá hvort hún vill lýðræðisstjórn fólksins eða þá stjórn sem er núna.“
Makríldeilur komu í veg fyrir að viðræður kláruðust
Össur, sem var utanríkisráðherra í síðustu ríkisstjórn, segir að það hafi fyrst og fremst deilur um makríl við Evrópusambandið og Noreg sem ollu því að ekki tókst að ljúka viðræðum um aðild Íslands að sambandinu á síðasta kjörtímabili. Hann segir einnig að krónan sem gjaldmiðill sé fallin á prófinu og geri Ísland að láglaunaþjóð. „Í krafti krónunnar gyrða bankarnir sig í belti og axlabönd sem heita ofurvextir og verðtrygging. Ég held að það sé ekki hægt að afnema böl verðtryggingarinnar og Íslandsálagsins á vextina nema taka upp nýjan gjaldmiðil. Þá eru fjórir valkostir. Norðmenn gáfu þeim drag í afturendann sem vildu taka upp norsku krónuna, Seðlabankinn sagði afleik að taka upp Kanadadollar, við höfum lítil viðskipti við Bandaríkin þó að Bandaríkjadalur sé að standa sig vel, en okkar stærsta viðskiptasvæði er Evrópa. Í mínum augum er það bara evran sem kemur til greina.“
Hann vill ekki svara því beint hvort hann hafi áhuga á að bjóða sig fram til forseta. Ótímabært sé að spekúlera hvort Ólafur Ragnar Grímsson hætti. „Sjálfur hef ég stutt hann þessi 20 ár, þó stundum hafi verið öldurót. Mér finnst í öllu falli svolítið óviðkunnanlegt þegar kvartað er undan því að hann sé ekki búinn að tilkynna um áform sín, jafnvel þó einhverjir menn hafi árum saman gengið með forsetann í maganum. Ég hef ekki verið í þeim hópi svo það sé í gadda slegið.“