Ekki verður tilkynnt um útboð Ríkskaupa á flugmiðum fyrir opinbera starfsmenn í haust eins og til stóð. Talið er að erlend flugfélög muni vilja taka þátt í útboðinu. Frá þessu er greint á vef Túrista.is og þar talið ólíklegt að íslensk flugfélög muni sitja ein að flugferðum ríkisstarfsmanna til Evrópu.
Síðast var óskað eftir tilboðum í flugferðir fyrir ríkisstarfsmenn árið 2011 en þá bárust aðeins tilboð frá Icelandair og Iceland Express. Samið var við bæði flugfélögin um flugferðir á fimm leiðum en ári síðar var starfsemi Iceland Expres hætt. WOW Air kærði stöðu mála í byrjun 2015 og komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að halda þyrfti annað útboð.
Samkvæmt upplýsingum túrista.is er ennþá unnið að því að klára útboðsgögnin. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framkvæmd útboðsins heldur en vonast er til að vinnunni ljúki fyrir áramót. Gert er ráð fyrir því að útboðin megi ekki bjóða hvata fyrir starfsmenn til að ferðast hjá viðkomandi flugfélagi eða veita þeim persónuleg fríðindi á borð við vildarpunkta.
Nokkur umræða hefur verið um framkvæmd og eðlilega hætti þegar kemur að kaupum ríkisns á flugmiðum fyrir starfsmenn. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, hefur látið hafa eftir sér að það sé í „hæsta máta óeðlilegt að ríkisstarfsmenn þiggi vildarpunkta til persónulegra nota vegna flugferða sem skattgreiðendur hafa borgað fyrir“.
Forsvarsmenn erlendra flugfélaga hafa lýst áhuga á því að taka þátt í útboðinu. Nýverið gerðu dönsk stjórnvöld samninga um flugferðir danskra ríkisstarfsmanna. Þar var óskað eftir tilboðum í hátt í 200 flugleiðir og samningar gerðir við þrjú flugfélög á hverri leið. Starfsmönnum er svo skylt að velja ódýrasta flugfarið á hverri leið en skilyrt var í útboðinu að flugfélögin byðu upp á að minnsta kosti þrjár ferðir í viku.
Flugélög á borð við SAS og British Airways, sem hingað fljúga nokkrum sinnum í viku, gætu hugsanlega boðið betur en íslensku flugfélögin Icelandair og WOW air á leiðum til Evrópu. Á leiðum vestur um haf er Delta eina erlenda flugfélagið sem lendir í Keflavík.