Staða útgerðarinnar í Grímsey verður styrkt, samgöngur í eyjuna verða bættar og lækkun húshitunarkostnaðar verður könnuð, allt í þeim tilgangi að styðja við byggðina í Grímsey. Þetta samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun að tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Sigmundur segir í tilkynningu um málið að það sé áríðandi að bregðast við þeirri erfiðu stöðu sem uppi hafi verið í Grímsey undanfarin ár.
„Heimamenn óttast að ef ekkert verði að gert leggist útgerð í Grímsey af og jafnvel búseta í framhaldi af því,“ segir hann. Sigmundur segir sérstöðu eyjunnar vera óumdeilda, og að með þessum aðgerðum verði hægt að styðja við áframhaldandi búsetu þar.
Ríkisstjórnin skipaði sérstakan vinnuhóp til þess að skoða stöðu eyjarinnar í ágúst síðastliðnum. Vinnuhópurinn átti að vinna í samvinnu við aðgerðahóp sem Akureyrarbær hafði áður sett á laggirnar. Vinnuhópur ríkisstjórnarinnar var skipaður fulltrúum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna tengingar við byggðamál og sjávarútveg, frá innanríkisráðherra vegna samgöngumála, frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra vegna raforku- og hitaveitumála og frá forsætisráðuneyti, en forsætisráðuneytið leiddi vinnuna.
Vinnuhópurinn heimsótti meðal annars Grímsey í október síðastliðnum og kynnti drög að tillögum fyrir íbúum þar. Hópurinn telur að byggðin muni eiga undir högg að sækja ef stjórnvöld grípi ekki inn í. Kjarninn hefur óskað eftir því að fá tillögur vinnuhópsins.