Kúlnahríð og sprengingar gerðu íbúum í úthverfi nyrst í París bylt við í morgun. Lögregan gerði áhlaup á byggingu þar sem talið var að belgíski hryðjuverkamaðurinn sem talinn er hafa skipulagt árásirnar á föstudaginn héldi sig.
Tveir árásarmenn létust í áhlaupi lögreglunnar. Einn þeirra var kona sem sprengdi sprengju sem hún bar. Hinn var skotinn til bana af leyniskyttu. Að minnsta kosti sjö manns voru teknir fastir af lögreglu. Markmiðið var að ná Abdel-Hamid Abu Oud, þeim sem talið er að hafi skipulagt árásirnar í París fyrir helgi. Upphaflega var talið að hann hefði skipulagt árásirnar frá Sýrlandi en Abu Oud er einn þeirra sem er í haldi eftir áhlaupið. Fréttir eru enn að berast af því hvernig aðgerðin tókst til.
Vitni segja að skothvellirnir hafi fyrst heyrst um klukkan 4:20 að staðartíma. „Börnin mín grétu. Skothríðin stóð yfir í 20 til 25 mínútur, svo hljótt. Svo hófst hún aftur og stóð í mjög langan tíma,“ er haft eftir Nabil Guerram sem býr í Saint-Denis-hverfinu þar sem áhlaupið var gert.
Lögreglan er nú að rýma bygginguna og nágreni hennar. Sjúkraliðar bíða fyrir utan eftir fólki sem þarf aðhlynningu. Á meðal þeirra sem koma út úr byggingunni eru börn.
Að minnsta kosti sjö sprengingar heyrðust á meðan áhlaupi lögreglu stóð. Aðgerðirnar stóðu fram til klukkan 7:30 en mikið lögreglulið er enn á staðnum. Vegum og götum hefur verði lokað í nágreninu. Öllum almenningssamgöngum í Saint-Denis hefur verið frestað og skólahald verður ekki í dag.