Verið er að opna flugstöð 3 á Kastrup-flugvelli á nýjan leik eftir að henni var lokað í morgun vegna grunsamlegrar tösku. Ekkert vafasamt fannst í töskunni. Bæði sprengjuleitarhundar og sprengjuleitarvélmenni skoðuðu töskuna og fundu ekkert.
Taskan fannst í flugstöð 3, þar sem Icelandair er með sína aðstöðu á flugvellinum. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við RÚV að hann hafi fengið tilkynningu um rýminguna en flugmálayfirvöld fullyrði að málið eigi ekki að hafa áhrif á brottfarir flugvéla.
Lestarsamgöngur riðluðust vegna rýmingarinnar og engar lestir gengu til Kastrup á meðan á aðgerðum lögreglu stóð. Allar samgöngur eiga nú að vera komnar í samt lag, að sögn danska ríkisútvarpsins DR.
Að sögn lögreglunnar heyrðu farþegar útundan sér aðra farþega tala um mögulega sprengju, og þess vegna var ákveðið að rýma bygginguna.