Lokað verður fyrir bílaumferð á neðri hluta Laugavegs og Skólavörðustígs um helgar í desember og alfarið frá 18. desember til aðfangadags. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti þetta í gær en málið bíður staðfestingar borgarráðs. Borgarráð tekur málið til umfjöllunar í næstu viku en í millitíðinni verður haldinn fundur með hagsmunaaðilum.
Fyrirkomulagið verður með sama hætti og göngugötur í miðborginni á sumrin, og opið verður fyrir vöruafgreiðslu á morgnanna.
Júlíus Vífill Ingvarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði, sat hjá við afgreiðslu málsins og gagnrýndi það. „Þær viðvörunarraddir hafa heyrst frá kaupmönnum að lokun Laugavegar á aðventunni muni draga úr verslun. Samtök kaupmanna á svæðinu hafa óskað eftir fundi um málið en slíkur fundur hefur ekki verið haldinn og er það miður,“ sagði hann í bókun sinni um málið. Stjórnvald ætti ekki að taka ákvarðanir sem hópur fólks telji vera íþyngjandi, nema leitað sé eftir formlegu áliti og röksemdum.
Fulltrúar meirihlutans í borginni sögðu þvert á móti að með því opnun göngugatna sé í þágu allrar starfsemi í miðborginni. „Enda hefur nýleg könnun borgarinnar leitt í ljós að yfirgnæfandi meirihluti rekstraraðila sé jákvæður fyrir göngugötum á aðventunni.“
Júlíus Vífill sagði að með þessu hafi meirihluti ráðsins viðurkenna skort á samráði, en meirihlutinn sagði að komið hafi verið til móts við áhyggjur um undirbúningstíma og fjölda opnunardaga.