Ólöf Nordal innanríkisráðherra hyggst ekki loka þriðju flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli og segir ákvörðun um slíka lokun ekki verða tekna án fullvissu um að lokun brautarinnar verði ekki tekin án fullvissu um að lokun hennar komi ekki niður á öryggi flugvallarins.
Þetta kemur fram í svarbréfi Ólafar til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra vegna lokunar flugbrautarinnar, sem gert var samkomulag um fyrir tveimur árum síðan. Bréfið var lagt fram í borgarráði í dag. Þar var einnig ákveðið að borgarlögmaður skuli höfða mál á hendur ríkinu vegna þessa.
Dagur sendi Ólöfu bréf í sumar þar sem farið var fram á það að Ólöf tilkynnti um lokun brautarinnar sem fyrst og að gerðar verði breytingar á skipulagsreglum, svo að fyrirhugaðar framkvæmdir á Hlíðarenda við flugvöllinn geti náð fram að ganga. Ríkið hafi samningsbundnar skyldur til að loka brautinni og ljóst sé að borgin geti skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart uppbyggingaraðilum og þá verði ríkið sótt til saka.
Ólöf hafnar þessu öllu í bréfi sínu. Hún mótmælir mögulegri bótaskyldu ríkisins venga byggingaráforma á Hlíðarenda en segir eðlilegt að borgin leggi álitamálin fyrir dómstóla svo skorið verði úr um það hvort ríkinu beri að loka flugbrautinni eða breyta skipulagsreglum.
Ólöf segir í bréfi sínu ljóst að óraunhæft sé að ætla annað en að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri í næstu framtíð. „Tryggja verður fullt öryggi flugvallarins í Vatnsmýrinni og þjónustustig sem samræmist hlutverki vallarins.“
Framsókn og flugvallarvinir greindu frá svarbréfi Ólafar í fréttatilkynningu, en flokkurinn fagnaði þessu í bókun sem lögð var fram í borgarráði í morgun.