Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort sýknudómi í hópnauðgunarmáli, sem kveðinn var upp í morgun, verður áfrýjað. Þetta kemur fram í máli Daða Kristjánssonar, saksóknara hjá ríkissaksóknara, á mbl.is.
Fimm ungir menn voru sýknaðir af ákæru um hópnauðgun, en einn þeirra var dæmdur fyrir að taka athæfið upp á myndband. Daði segir í samtali við mbl að málið sé einfaldlega þess eðils að mikilvægt sé að fara vel ofan í saumana á því. Embætti ríkissaksóknara hafi talið eðlilegt og rétt að málið færi fyrir dómstóla, og að þeir tækju af skarið varðandi sönnuarmat. Ekki hafi verið talið forsvaranlegt að fella það niður.
Dómurinn hefur nú verið birtur. Í honum kemur fram að dómurinn telji framburð allra mannanna trúverðugan og hver þeirra hafi „greint hreinskilnislega frá“ málinu. Hins vegar kemur fram í dómnum að hann telji vitnisburð stúlkunnar „um andstöðu sína við því sem fram fór og hvernig hún kveðst hafa gefið ákærðu hana til kynna sé ótrúverðugur.“
Þá segir dómurinn að hvorki gögn um skoðun stúlkunnar á neyðarmóttöku né önnur gögn málsins, styðji vitnisburð hennar. Þrjú vitni báru að hún hefði sagst ætla að segja um nauðgun að ræða ef myndbandið færi í dreifingu. Þá er það talið rýra trúverðugleika hennar að hafa rætt við einn hinna ákærðu á Facebook eftir atburðinn, þar sem rætt var um að hún væri ósátt við upptökuna, en hún hafi ekki minnst á nauðgun.
Þá var notuð til sönnunar upptaka úr öryggismyndavél þar sem stúlkan sést fara úr húsinu, og segir í dómnum að af upptökunni verði „ekki ráðið að hún hafi skömmu fyrr orðið fyrir því alvarlega broti sem lýst er í ákæru.“
Dóminn í heild sinni má lesa hér.
Eins og fram hefur komið segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður eins mannanna, að það komi til greina að kæra stúlkuna fyrir rangar sakargiftir. Samtökin Stígamót, sem starfa með og fyrir þolendur kynferðisofbeldis, sendu frá sér yfirlýsingu á Facebook í dag, meðal annars í tengslum við dóminn. Þar kemur fram að nú sé svo komið að það sé ekki bara erfitt að mæla með því að fólk kæri kynferðisofbeldi heldur sé nú svo komið að nærtækast sé að ráða fólki frá því að kæra. „Það er ekki bara vonlítið að ná fram réttlæti, heldur á fólk á hættu að vera úthrópað glæpafólk. Það getur átt von á að vera kært fyrir falskar ásakanir og þurfa þá að sanna það sem lögreglunni tekst oftast ekki að sanna, að nauðgun hafi átt sér stað. Í þá stöðu er ekki hægt að setja fólk og það er óviðunandi.“