Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í morgun fimm unga menn af ákæru um hópnauðgun, en þeim hafði verið gefið að sök að hafa nauðgað sextán ára gamalli stúlku í samkvæmi vorið 2014. Einn mannanna var hins vegar dæmdur fyrir að hafa tekið upp myndband af athæfinu, og fyrir það var hann dæmdur í mánaðarfangelsi, skilorðsbundið, og til að greiða konunni 500 þúsund krónur í miskabætur.
Dómurinn komst að þeirri niðustöðu að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að stúlkan hafi ekki verið samþykk því sem fram fór.
Stúlkan kærði mennina í maí síðastliðnum, en hún lagði sjálf fram myndbandsupptöku þegar hún lagði fram kæruna. Mennirnir voru allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald í kjölfarið, og sættu einangrun á meðan á því stóð. Mennirnir, sem þá voru 17 til 19 ára gamlir, gengust allir við því að hafa haft samfarir við stúlkuna en sögðust telja að hún væri því samþykk.
Myndbandsupptakan, sem einn mannanna var dæmdur fyrir að hafa gert, var í fyrra talin styðja framburð stúlkunnar í málinu. Lögreglan taldi þetta og notaði sem röksemd fyrir því að hneppa ætti mennina í gæsluvarðhald, og Héraðsdómur Reykjavíkur tók undir að upptakan styddi framburð stúlkunnar. Þá var tekið fram í úrskurðinum að rannsóknin væri skammt á veg komin og eftir ætti að ræða við fjölda vitna sem gætu gefið nánari upplýsingar um mikilvæg atriði. Tugir einstaklinga voru yfirheyrðir vegna málsins. Við rannsókn málsins kom fram í fjölmiðlum að mönnunum hefði ekki borið saman um atburðinn og atburðarás honum tengda.
Dómurinn hefur ekki verið birtur opinberlega, en Morgunblaðið og Vísir hafa dóminn undir höndum. Í frétt blaðsins kemur fram að samræmi hafi verið milli framburðar allra mannanna á meðan þeir hafi setið í gæsluvarðhaldi. Framburður stúlkunnar hafi verið breytilegur um sum atriði og komið hafi fram í máli hennar að hún myndi sumt illa. Hún hafi sagt að hún hafi gefið mönnunum til kynna að hún vildi ekki vera með þeim en ekki sagt það berum orðum, en síðar hafi hún sagt að hún gæti hafa sagt það berum orðum en myndi það ekki.
Þá segir í dómnum að stúlkan „virðist“ fyrst hafa talað um nauðgun eftir að myndbandsupptökuna bar á góma. Þar segir einnig að þrjú vitni hafi sagt að stúlkan hefði sagt að ef myndbandið sem tekið var upp færi í dreifingu myndi hún segja að um nauðgun hafi verið að ræða. Einnig segir í dómnum að gögn um skoðun neyðarmóttöku styðji ekki framburð stúlkunnar, og því sé ósannað að mennirnir hafi gerst sekir um nauðgun.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi eins mannanna, segir við DV að hann geri ráð fyrir því að mennirnir muni „sækja sinn rétt“ vegna gæsluvarðhaldsins, og að hugsanlega verði konan kærð fyrir rangar sakargiftir.
Erlendur Þór Gunnarsson, verjandi annars ungu mannanna, segir hins vegar við Kjarnann að umbjóðandi hans hafi aldrei íhugað að kæra hana.