99,9 prósent kröfuhafa Glitnis samþykktu í dag nauðasamning slitabúsins, þegar almennur kröfuhafafundur var haldinn. Rúv greinir frá þessu. Næsta skref slitastjórnar Glitnis er því að óska eftir staðfestingu héraðsdóms á nauðasamningnum og þegar því er lokið fá kröfuhafar greitt út og félagið verður afhent nýjum hluthöfum.
Einnig var samþykkt á fundinum uppfært stöðugleikaframlag til ríkisins, sem felst einkum í því að ríkið eignast Íslandsbanka. Á öðrum fundi í september hafði meirihluti kröfuhafa Glitnis samþykkt að greiða stöðugleikaframlag til ríkissjóðs Íslands og uppfylla auk þess önnur skilyrði fyrir gerð nauðasamninga. Þá var samþykkt framlag upp á að minnsta kosti 200 milljarða króna.
Eftir fundi kröfuhafa með framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta var ákveðið að breyta tillögunum með þeim hætti að ríkið eignist Íslandsbanka og það verði stærsti hluti stöðugleikaframlags Glitnis.
Á kröfuhafafundinum í september var jafnframt ákveðið að stofna sérstakan skaðleysissjóðs en slitastjórn fór fram á að slíkur sjóður yrði stofnaður, það var síðan samþykkt á nýjan leik í dag. Hlutverk sjóðsins verður að þeir aðilar sem stýrt hafa búinu, slitastjórn og aðrir starfsmenn, verði ekki persónulega ábyrgir vegna þeirra ákvarðana sem hafa verið teknar undir slitameðferðinni. Stærð sjóðsins nemur tíu milljörðum króna.