Fresta þurfti boðuðum fundi fjárlaganefndar Alþingis, þar sem ræða átti tillögur vegna annarrar umræðu fjárlaga og fjáraukalaga, vegna þess að ríkisstjórnarfundur, þar sem sama mál var rætt, dróst á langinn.
Fundurinn í fjárlaganefnd átti að hefjast klukkan tvö í dag en var sem fyrr segir frestað. Hann hefur verið boðaður klukkan hálfníu á mánudagsmorgun í staðinn, að sögn Vigdísar Hauksdóttur, formanns nefndarinnar.
Vigdís segir í samtali við Kjarnann að ríkisstjórnin hafi lokið við sínar tillögur á fundinum í dag, og því hefði verið hægt að halda fund í fjárlaganefnd nú seinni partinn. Hins vegar séu margir landsbyggðarþingmenn í fjárlaganefnd og það hefði verið ósanngjarnt ef hún hefði verið með hörku og haft fundinn klukkan hálffjögur í dag.
Samkvæmt starfsáætlun þingsins átti önnur umræða um fjárlögin að fara fram næstkomandi fimmtudag, en ljóst er orðið að það verður ekki þar sem fjárlaganefnd hefur ekki enn fengið tillögur ríkisstjórnarinnar. „Það er bara augljóslega komin seinkun“ segir Vigdís. „Ég er algjörlega óstressuð yfir því. Ég get lofað þér og þjóðinni því að það verður búið að afgreiða fjárlögin fyrir áramót.“ Hún segir að verið sé að skapa úlfúð með tali um að umræðan standist ekki starfsáætlun þingsins, og stjórnarandstaðan hugsi ekki um dagskrá þingsins þegar verið sé að stunda málþóf. „Ég gæti ekki verið rólegri yfir þessu.“
Ellefu þingfundadagar eru eftir af þinginu fram að jólum samkvæmt áætluninni, þar af eru tveir dagar sérstaklega áætlaðir í umræður um fjárlögin. Þriðja og síðasta umræðan á að fara fram þriðja desember næstkomandi, en það mun væntanlega ekki standast heldur.