Björk Guðmundsdóttir er fimmtug í dag, 21. nóvember. Hún er ekki eingöngu frægasti Íslendingurinn heldur er hún líka talin einn 100 áhrifamestu einstaklinga heimsins, að mati TIME magazine. Tímaritið valdi hana á listann fyrr á árinu, og setti í hóp íkona. Þar eru líka Frans páfi, söngkonan Taylor Swift, rithöfundurinn Haruki Murakami, Malala Yousafzai og Ruth Bader Ginsburg, fyrrverandi hæstaréttardómari í Bandaríkjunum.
Í fjölmiðlum víða um heim er þessara tímamóta getið. Í dönsku blöðunum Politiken og Berlinske tiderne var fjallað um afmælið í gær. Í Svíþjóð er einnig fjallað um hana, Dagens Nyheter tekur saman fimm myndbönd með henni og sænska ríkisútvarpið greinir frá því að í óperuhúsinu í Umeä verða í kvöld haldnir sinfóníutónleikar henni til heiðurs.
El Mundo á Spáni óskar Björk til hamingju með daginn og skrifar grein um feril hennar, sem einnig er gert í Paraméter í Slóvakíu. Tónlistartímaritið NME heldur upp á afmæli Bjarkar með yfirgripsmiklu myndagalleríi og sögum af ferli hennar og Doublej segir Björk vera í dag eins og alltaf „algjörlega einstaka“.
Finnst Ísland fjársjóður 21. aldarinnar
Björk hefur látið mikið til sín taka í náttúruvernd á undanförnum árum. Fyrr í þessum mánuði hélt hún blaðamannafund ásamt Andra Snæ Magnasyni rithöfundi, þar sem heimsbyggðin var beðin um hjálp við að stemma stigu við stóriðjustefnu stjórnvalda hér á landi.
Í fyrra vakti hún líka mikla athygli þegar hún og Darren Aronofsky kvikmyndaleikstjóri stóðu meðal annarra fyrir tónlistarlegum stórviðburði til að krefjast þess að afturköllun náttúruverndarlaga yrði dregin til baka. Fé var safnað fyrir Náttúruverndarsamök Íslands og Landvernd.
Björk kom í einkaviðtal við Kjarnann í tengslum við þessa tónleika. Grípum niður í viðtalið: „Við viljum virkja þjóðina í fjársöfnun svo að samtökin geti starfað af fullum styrk og sem fulltrúar okkar og náttúrunnar. Svo þau geti ráðið sér lögmenn, prentað plaköt og verið með alvöru skotfæri til að fylgja þessu máli alla leið.“
Hún sagðist vonast til þess að ríkisstjórnin hlustaði á þjóðina sína. „Ég er fyrst og fremst tónlistarkona sem hefur nærst mikið af náttúrunni. Svo hef ég verið að þakka fyrir mig með því að reyna að vernda hana. Þar get ég ekki verið hlutlaus. En ég hef aldrei kosið stjórnmálaflokk og hef vandað mig í að dreifa orkunni minni ekki of mikið í aðrar áttir. Ég vil ekki missa fókusinn á náttúruvernd.“
Björk sagði fólk í kringum hana telja Íslendinga heppna. „Fólki í borgum erlendis finnst það vera búið að eyðileggja jörðina. Það er fullt af sektarkennd. Fólk er lamað af sektarkennd og veit ekki hvar það á að byrja. Og það dáist að okkur fyrir að hafa haldið landinu okkar „ósnertu“. Því finnst það vera fjársjóður tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Því finnst við vera mjög heppin.“