Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir notkun Ingibjargar Kristjánsdóttur, eiginkonu Ólafs Ólafssonar, fanga á Kvíabryggju, á hugtakinu „mannréttindabrot“ vera í „besta falli skilningsleysi og algert virðingarleysi við fólk sem raunverulega hefur orðið fyrir mannréttindabrotum af hálfu yfirvalda hér á land sem annars staðar.“
Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, segir Pál Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar, brjóta á réttindum fanga eins og eiginmanns hennar. Hún sakar hann einnig um að tjá sig opinberlega um einkamál útrásarvíkinga og bankamanna sem sitja í fangelsinu að Kvíabryggju og fara með ósannindi um þá. Þetta segir hún í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær.
„Framganga Páls er sérlega ósmekkleg í ljósi þess að hann veit manna best að frelsissviptingin ein og sér er mönnum nógu erfið þó mannréttindi þeirra séu ekki brotin samhliða“ segir Ingibjörg. Þetta hafi verið gert á kostnað skjólstæðinga Páls, „fanga sem eiga sér fáa málsvara í þjóðfélagi haturs og hefnigirni, fanga sem Páll veit að er óheimilt að tjá sig í fjölmiðlum. Fangarnir eru því varnarlausir gegn aðför forstjóra Fangelsismálastofnunar.“
Páll segir fullyrðingar Ingibjargar, um hin ýmsu mál sem snúa að fangelsismálayfirvöldum og honum sjálfum, vera rangar.
„Ég hélt fyrst þegar ég las þessa grein að um grín væri að ræða. Konan, sem kveðst maki refsifanga, sakar mig um ýmis brot eins og gengur og sakar mig m.a. annars um nafngreiningu ónafngreindra fanga. Ég er vanur athugasemdum frá Afstöðu, félagi fanga, þar sem ég þarf oft að svara fyrir ummæli og gjörðir mínar. Það er góður og eðlilegur samskiptamáti minn við fulltrúa fanga. Samskipti mín við Afstöðu eru góð þrátt fyrir að við séum, eðli máls samkvæmt, ekki sammála um alla hluti. Ef ég ætti að svara öllum aðstandendum fanga, hverjum um sig, gerði ég ekki annað enda skipta þeir hundruðum. Ég get því ekki eytt miklum tíma í svona athugasemdir aðstandenda eða almannatengslafyrirtækja. Mér finnst þó rétt að svara einu atriði bréfsins efnislega. Notkun konunnar á hugtakinu „mannréttindabrot“ er í besta falli skilningsleysi og algert virðingarleysi við fólk sem raunverulega hefur orðið fyrir mannréttindabrotum af hálfu yfirvalda hér á landi sem annars staðar. Að öðru leyti ekki er annað um skrifin að segja en að fullyrðingar makans eru rangar,“ sagði Páll í samtali við Kjarnann.