Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að John F. Kennedy, fyrrum forseti Bandaríkjanna, hafi verið framsóknarmaður. Hann vitnaði til orða Kennedy í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem fór fram í gær og í dag.
Sigmundur vitnaði til frægra orða Kennedy, sem sagði í innsetningarræðu að landsmenn ættu ekki að spyrja hvað landið gæti gert fyrir þá heldur hvað þeir geti gert fyrir landið. Sigmundur sagði tímabært að Íslendingar huguðu að þessum boðskap.
Of algengt sé að fólk leggi fyrst og fremst áherslu á réttindi en síður á skyldur og ábyrgð, og það geti reynst dragbítur á framfarir til lengri tíma. Of lítið sé horft til ábyrgðar og skyldna einstaklinga sem hafi mikilvægar samfélagslegar skyldur og ábyrgð gagnvart meðborgurum og landinu.
Í ræðu sinni hélt Sigmundur Davíð því fram að munurinn á þessari ríkisstjórn og þeirri síðustu séu meira en 1500 milljarðar þegar talinn sé saman árangur af áætlun um afnám hafta, Icesave og árangur af efnahagsstjórn. Árangurinn hafi náðst með lausnum framsóknarmanna, sem sumar hefðu verið óhefðbundnar.
Hér má lesa meira um ræðu Sigmundar.