Ekki er sjálfgefið að álverið í Straumsvík muni opna aftur, ef því verður lokað vegna verkfalls starfsmanna þar. Verkfallið á að hefjast 2. desember næstkomandi. Þetta segir Ólafur Teitur Guðnason, talsmaður Rio Tinto Alcan á Íslandi, við mbl.is.
Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna álversins, segir að verði það raunin sé fyrirtækið að nota starfsfólk sitt og gera það og verkalýðsfélög að blóraböggli.
Kjaradeila starfsmannanna í Straumsvík hefur staðið mjög lengi. Strandað hefur á því að Rio Tinto vill bjóða meira út í verktöku. Næsti fundur í kjaradeilunni er boðaður á þriðjudaginn.
Ákvæði í kjarasamningi starfsmanna álversins gerir ráð fyrir því að eftir að verkfall hefst hafi fyrirtækið aðgengi að starfsmönnum í tvær vikur, til að lágmarka tjón þegar slökkt er á 480 kerjum álversins. Ólafur Teitur segir að það sé hins vegar meiriháttar mál að kveikja aftur á kerjunum og það sé ekki sjálfgefið að kveikt verði á þeim aftur yfir höfuð.
Gylfi segir að ef fyrirtækið ætli í þá vegferð núna að loka álverinu séu þeir að gera launþegana að blóraböggli. „Þá er Rio Tinto í þeirri vegferð að finna ástæðu til að loka fyrirtækinu. Við erum ekki í þeirri vegferð, það eru þá eigendur fyrirtækisins. Fyrirtækið stendur ekki og fellur með launum lægst launaða fólksins í fyrirtækinu eins og þess sem þeir vilja fara með í verktöku. Þá er vegferðin einhver önnur hjá þeim,“ segir Gylfi við mbl.is.