Óhætt er að segja að fjárfestar hafi tekið tíðindum af kaupum Marel á hollenska fyrirtækinu MPS vel því markaðsvirði Marel jókst um 11,58 prósent í viðskiptum dagsins og var velta með bréf félagsins 1,7 milljarðar króna. Tilkynnt var um kaup Marel á MPS, sem er fyrirtæki sem framleiðir búnað fyrir fyrsta stig kjötvinnslu, um helgina en fyrir það greiddi Marel 382 milljónir evra, eða sem nemur um 55 milljörðum króna.
Á rúmlega einu ári hefur markaðsvirði Marel rúmlega tvöfaldast, en í október í fyrra var gengi félagsins 104. Eftir jákvæðar rekstrartölur og endurskipulagningu í rekstri, hefur arðsemi aukist og hagnaður sömuleiðis.
Marel var í fyrra annað stærsta fyrirtæki landsins, þegar litið er til rekstrartekna, en þær námu 712 milljónum evra, eða sem nemur um ríflega 100 milljörðum króna, miðað við núverandi gengi. Ljóst er að þær aukast mikið á þessu ári, ekki síst sé horft til kaupanna á MPS sérstaklega, en um er að ræða stærstu fyrirtækjakaup íslensks fyrirtækið frá hruni fjármálakerfisins og setningu fjármagnshafta.
MPS er með höfuðstöðvar í Hollandi og um 670 starfsmenn. Áætlaðar árstekjur félagsins á þessu ári eru 150 milljónir evra, og EBITDA hagnaður nálægt 40 milljónum evra. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, sagði í tilkynningu vegna viðskiptanna að fyrirtækið passi vel við Marel og muni styrkja félagið. „Yfirtakan mun styrkja stöðu Marel sem markaðsleiðtoga á ört vaxandi markaði og auka samkeppnishæfni og arðsemi til lengri tíma litið.“
Stærsti eigandi Marel er Eyrir Invest, með tæplega 30 prósent hlut, en Lífeyrissjóður verzlunarmanna kemur næst þar á eftir með 9,1 prósent hlut.