Raforkusölusamningur á milli Rio Tinto Alcan og Landsvirkjunar var endurnýjaður í fyrra og gildir til ársins 2036. Það er alls óvíst að Rio Tinto gæti losnað undan samningnum ef álverinu í Straumsvík yrði lokað, eins og forsvarsmenn álversins hafa haldið fram undanfarna daga að gæti gerst, að mati Ketils Sigurjónssonar sérfræðings og miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja.
Forsvarsmenn álversins halda því fram að ef til verkfalls kemur þann 2. desember næstkomandi þurfi að loka álverinu og þá sé ekki sjálfgefið að það verði opnað aftur. Almennir starfsmenn fyrirtækisins hafa átt í langvinnri kjaradeilu við fyrirtækið, sem strandar einna helst á því að fyrirtækið vill bjóða verkefni út í verktöku í auknum mæli.
Alcan gæti þurft að sanna að það hafi gert allt sem það gat
Raforkusamningar sem Landsvirkjun gerir eru trúnaðarmál, og því er erfitt að ganga að nokkru vísu um þessi mál. Forsvarsmenn Landsvirkjunar vilja ekki tjá sig um „viðkvæma kjaradeilu“, að sögn Magnúsar Þórs Gylfasonar, forstöðumanns samskiptasviðs Landsvirkjunar.
Almennir skilmálar Landsvirkjunar vegna sölu á forgangsrafmagni eru hins vegar ekki trúnaðarmál, en þeir taka almennt um viðskipti Landsvirkjunar um forgangsrafmagn við þau fyrirtæki sem kaupa meira en 1 GWst á ári, sem Rio Tinto Alcan gerir. Meirihluti orkunnar sem fyrirtækið kaupir er forgangsrafmagn.
Í almennu skilmálunum er ákvæði um óviðráðanleg öfl (force majeure) sem geti haft áhrif á samninga. Meðal þess sem telst til óviðráðanlegra afla er ófriður og byltingar, en einnig ýmsar náttúruhamfarir og „hvers kyns ámóta atvik sem ekki er unnt að koma í veg fyrir eða hafa stjórn á með eðlilegum ráðum af hálfu aðilanna.“ Þá getur ákvæðið átt við um allsherjarverkföll, staðbundin verkföll og ámóta vinnutruflanir, „sem aðili sá, er fyrir slíku verður, hefur ekki getað komið í veg fyrir eða haft stjórn á, þótt hann hafi beitt öllum eðlilegum ráðum, sem honum voru tiltæk“ en sá sem ætlar að bera fyrir sig óviðráðanlegum öflum þarf að sanna þau.
Ef ákvæði sem þetta er í samningum Landsvirkjunar við Rio Tinto Alcan þarf fyrirtækið því væntanlega að sýna fram á að það hafi beitt öllum eðlilegum ráðum til að koma í veg fyrir lokunina, ef það ætlar að reyna að losna undan raforkusamningnum.
Því til viðbótar má nefna að hluti samningsins á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto Alcan er aðgengilegur, vegna þess að samningar af þessu tagi hafa farið fyrir ESA, eftirlitsstofnun ESA. Þar kemur fram að í sjöundu grein samningsins sé "Take or Pay" ákvæði, sem hefur í för með sér að álverið í Straumsvík þurfi að greiða fyrir ákveðið magn af orku á ári, burtséð frá því hvort fyrirtækið noti minni orku. Ekkert kemur fram um það í opinberum gögnum hvort force majeure ákvæði er í samningnum eða ekki.
Samningurinn milli Landsvirkjunar og Rio Tinto var endurskoðaður í fyrra, en hann var upphaflega gerður árið 2010, og gildir til 2036. Rio Tinto skilaði meðal annars 35 MW af ónotuðu afli og greiddi 17 milljónir dala vegna þess kostnaðar sem hlaust af því að Búðarhálsvirkjun var byggð fyrr en þörf var á. Virkjunin var byggð til að efna samninginn frá 2010, því Rio Tinto ætlaði að auka framleiðslu sína, en það gekk ekki eftir.
Finnst ólíklegt að hægt verði að komast undan kaupskyldu
Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum sem heldur úti Orkublogginu, fjallar um málið á bloggi sínu. Þar segir hann að mögulegt sé að ef til verkfalls kemur geti fyrirtækið losnað undan kaupskyldu á orku á meðan verkfallið varir. En hann telur verulega ólíklegt og nánast útilokað að álverið geti losnað undan samningnum einhliða ef álverinu verður lokað með vísan til tjóns vegna verkfallsins.
Ketill bendir á að kaupskylda álversins sé nálægt 3 TWst af orku á ári, og samkvæmt útreikningum hans greiðir fyrirtækið fyrir það nálægt 100 milljónir Bandaríkjadala.