Ekki er búið að semja um framlengingu á raforkusölusamningi milli Landsvirkjunar og álversins á Grundartanga, samkvæmt heimildum Kjarnans. Samningurinn rennur út árið 2019 en samkvæmt honum eiga Landsvirkjun og Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls, að hafa lokið samningum um framlengingu á árinu 2015. Nú þegar rúmur mánuður er eftir af árinu hefur samningum ekki verið lokið.
Forstjóri Century Aluminum, Michael Bless, greindi frá því í ágúst síðastliðnum að viðræður við Landsvirkjun stæðu yfir og þeim yrði haldið áfram, enda segi í skilmálum samningsins að aðilarnir eigi að ná saman um framhaldið á þessu ári. Bless sagði þennan samning eitt af forgangsmálum fyrirtækisins nú í haust. Samningurinn sem um ræðir er um 30 prósent þeirrar orku sem álverið á Grundartanga notar, en samningar um hin 70 prósentin renna út frá 2026 og til 2036.
Landsvirkjun vill ekki tjá sig um málið við Kjarnann.
Greiningar Ketils Sigurjónssonar, sérfræðings í orkumálum, hafa sýnt að Norðurál greiðir lægsta raforkuverð allra álvera á Íslandi til Landsvirkjunar. Landsvirkjun hefur undanfarin ár gert allt öðruvísi samninga við stórkaupendur orku, meðal annars hefur verið dregið verulega úr tengingum við heimsmarkaðsverð á áli, sem þýðir að Norðuráli bjóðast allt aðrir skilmálar nú en þegar samningurinn var upphaflega gerður.
Miklar þrengingar Century í Bandaríkjunum
Álver Norðuráls á Grundartanga verður að óbreyttu eina álver Century Aluminum í fullri framleiðslu á áli, frá og með áramótum. Fyrirtækið sendi frá sér viðvaranir í október um að álveri í Mt. Holly í Suður-Karólínu verði lokað um áramót og að framleiðsla álvers fyrirtækisins í Sebree í Kentucy verði minnkuð um þriðjung.
Í júní á þessu ári hafði verið tilkynnt að álveri í Ravenswood í Vestur-Virginíu yrði endanlega lokað, en framleiðslu þar var hætt árið 2009. Skömmu síðar var tilkynnt að vinnsla í álverinu í Hawesville í Kentucy yrði lækkuð í um 40 prósent af afkastagetunni.
Samkvæmt Century er lokun álversins í Mt. Holly fyrst og fremst vegna þess að núverandi samningur um orku til álversins rennur út um áramótin. Búið er að gera nýjan samning um orku til álversins, en ekki hefur tekist að semja um flutning á orkunni, að sögn Michael Bless, forstjóra Century. Hann sagði fyrirtækið hafa boðist til að borga fullt verð fyrir flutning á orkunni, en það hafi ekki dugað til. Þetta sagði hann óásættanlegt og að barist verði fyrir framtíð álversins næstu mánuði. Þetta sagði hann annað forgangsmál fyrirtækisins nú í haust, þegar hann ræddi um samningaviðræðurnar við Landsvirkjun.