Ásgeir Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir ákvörðun um að hafa skammbyssur í völdum lögreglubifreiðum að staðaldri, ekki í andstöðu við vopnareglur Ríkislögreglustjóra. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld, þar sem fjallað var reglur sem gilda um vopnaburð lögreglu.
Í þeim segir að hafa megi skammbyssur með í lögreglubílum í „sérstökum tilfellum“. Ásgeir sagði að enginn þyrfti að óttast það að byssum yrði beitt oftar en raunin hefur verið.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hygðist koma skammbyssum fyrir í lögreglubifreiðum.
Byssurnar hafa hingað til verið geymdar á lögreglustöðvum en nú munu almennir lögreglumenn hafa aðgang að þeim í læstum hirslum í bílum embættisins, að fengnu leyfi lögreglustjóra, að því er fram kom í Kastljósi.