Rio Tinto er alþjóðlegur auðhringur sem á sér viðbjóðslega sögu um allan heim, þar sem mannslíf hafa litlu skipt í leit þeirra að auknum hagnaði. Þetta segir Guðmundur Ragnarsson, formaður félags vélstjóra og málmtæknimanna, í nýjum pistli. Guðmundur fer hörðum orðum um Rio Tinto Alcan og framgöngu fyrirtækisins í kjaradeilu fyrirtækisins og starfsmannanna í álverinu í Straumsvík. Verkfall hefst í álverinu í næstu viku ef ekki hefur samist fyrir þann tíma.
„Um hvað snýst deilan í ÍSAL í raun? Hún snýst um alþjóðavæðingu auðhringa sem beita öllum ráðum til að sjúga eins og þeir geta út úr þeim hagkerfum sem þeir starfa í, með því að greiða lág laun, helst enga skatta né aðrar skyldur,“ skrifar Guðmundur í pistlinum. Hann segir að samfélagið verði að átta sig á því að deilan snúist ekki um þessi störf sem Rio Tinto vilji fá í verktöku, en um það hefur verið deilt í kjaradeilunni. Það skili fyrirtækinu engu í þeirri miklu veltu og litla launakostaði sem það hafi.
„Við höfum látið þessi fyrirtæki hafa orku á hagkvæmu verði til að fá þau hingað. Þau hafa óhindraða möguleika á að lána sjálfum sér á okurvöxtum og komast þannig hjá að greiða eðlilega skatta af hagnaði,“ segir Guðmundur. Ef láta eigi þeim eftir að fá vinnuna gefins líka, „þá er lítið fyrir okkur að hafa, sem samfélag, af veru þeirra hér. Það verður að stoppa þetta í fæðingu.“ Ef það verði ekki gert muni hin stóriðjufyrirtækin fara sömu leið til þess að skera niður launakostnað, eflaust með hótunum um að loka og fara ef þau fái ekki sitt fram.
Guðmundur segir það vera Samtökum atvinnulífsins til ævarandi skammar að „vera farin að ganga erinda auðhringa til að skaða íslenskt samfélag.“ Hann gagnrýnir líka Landsvirkjun fyrir að veita ekki upplýsingar um ákvæði raforkusamningsins við Rio Tinto.
Hann skorar á þingmenn að styðja kröfu starfsmanna í álverinu og taka slaginn við auðhringinn. „Látum hann finna fyrir að við ætlum ekki að láta vaða yfir okkur.“
Hann segir fyrirtækið spila ljótan leik ef það er að nota starfsfólkið til að fá hagkvæmari raforkusamning sýni það skítlegt eðli eigendanna. Ef ætlunin sé að loka eigi að hafa kjark til að gera það á réttum forsendum. Lokun sé mikið áhyggjuefni og afkoma margra sé í húfi. „Alþjóðlegir auðhringir skeyta hvorki um mannslíf, einstaklinga, fjölskyldur, samfélög eða annað til að hámarka gróða sinn,“ segir Guðmundur að lokum.