Stjórn BBC hefur staðfest að slökkt verði á BBC3 sjónvarpstöðinni, sem einblínir á yngri markhópa, ílok janúar á næsta ári. Talið er að niðurlagning stöðvarinnar, sem sett var á laggirnar fyrir tólf árum síðan, muni spara BBC 30 milljónir punda, um sex milljarða króna, á ári. Sú upphæð mun verða notuð í framleiðslu á sjónvarpsefni fyrir BBC1 í staðinn. BBC3 verður áfram aðgengileg á vef BBC. Frá þessu er greint á vef the Guardian.
BBC metur sem svo að fyrirtækið muni tapa um einni milljón áhorfenda með því að loka BBC3 sjónvarpsstöðinni og er uppistaðan í þeim fjölda ungt fólk. Stjórn BBC hefur þess vegna komið þeim skilaboðum áleiðis til stjórnenda BBC að allir lengri sjónvarpsþættir sem áður voru sýndir á BBC3 verði nú einnig sýndir á BBC1 eða BBC2 á góðum tíma, en verði ekki einungis sýndir á tíma þar sem fáir horfa á sjónvarp. Nauðsynlegt sé að auka efni sem er sérstaklega ætlað fyrir ungt fólk, einkum aldurshópinn 16 til 24 ára.
Að meðaltali horfa 11,2 milljón manns á BBC3 í viku hverri. Mikil andstaða var á meðal almennings gegn því að leggja stöðina niður en vilji var til þess á meðal stjórnenda BBC, sem vildu frekar nota fjármagnið sem fór í að reka hana í dagskrárgerð fyrir hinar stöðvar fyrirtækisins.
Meðal annars var haldið úti síðunni savebbc3.com þar sem ástæður fyrir áframhaldandi rekstri stöðvarinnar voru tíundaðar. Þar var meðal annars bent á að breskar stjörnur á borð við Matt Lucas, David Walliams, James Corden, Jack Whitehall og Russell Howard hafi allir fengið stóru tækifærin sín á BBC3, sem hafi þorað að vera öðruvísi stöð. Hópurinn sem stendur að baki síðunni telur að BBC3 sé nauðsynlegur vettvangur fyrir BBC til að prófa sig áfram með nýstárlegt efni og nýtt hæfileikafólk.