Be exactly who you want to be, do what you want to do
I am he and she is she but you're the only you
- Crass, Big A Little A
Það er óhætt að segja að Jón Gnarr sé í góðum félagsskap í sínum sjálfsævisöguskrifum. Sumar dáðustu bókmenntaperlur okkar eru einmitt sjálfslýsingar fólks utan alfaraleiðar. Dægradvöl Benedikts Gröndal, Samastaður Málfríðar Einarsdóttur í tilverunni og bróðurpartur höfundaverks Þórbergs Þórðarsonar koma upp í hugann. Að ógleymdum költ-klassíkerum á borð við Harmsögu ævi minnar og Einræðum Steinólfs í Fagradal.
Það er síðan eitt af einkennum hins smáa og skrítna samfélags okkar hvað einstigi sérvitringsins, nördsins, útlagans, deilir mörgum gatnamótum við alfaraleiðirnar, eins og saga Jóns Gnarr sýnir. En það er nú allt í þokuhulinni framtíð þegar þriðja og nýjasta bindi sjálfsævisögunnar lýkur. Með endurfæðingu.
Ekki er Jón nú stílisti á pari við ofannefnt fólk. Sá háttur hans að búta viðfangsefni sín niður í örsmáa bita og velta þeim fram og til baka fyrir sér hefur bernskan sjarma, en verður líka þreytandi, efnið missir á endanum bragð og áferð og niðurstöðurnar sjaldnast óvæntar eða spennandi. En samt. Þetta er hann. Jón er vanhæfur rithöfundur, en skrifar þessar ómótstæðilegu bækur. Frá samsvarandi pólitískum vinkli var Jón sennilega algerlega fráleitur borgarstjóri, þó hitt sé ekki síður satt að hann var stórkostlegur borgarstjóri og breytti sjónarhorninu sem við horfum á og metum stjórnmálin út frá. Til hins betra og vonandi til frambúðar.
Jón hefur fyrir löngu áunnið sér rétt til að vera eins og hann vill. Og Útlaginn, þessi innsýn í dramatískan hluta tilurðarsögu hans, er þrátt fyrir allt stagl og fagurfræðilegt lágflug snilldarleg á þann einstaka hátt sem við höfum – loksins – vanist frá Jóni.
Fyrst og fremst er það hans eigin saga sem heillar. Bæði hið einstaka, sér-gnarríska, en ekki siður hitt sem við þekkjum öll. Eða í það minnsta allir. Kynþroskasagan sem er hér í fyrirferðarmiklum forgrunni er algerlega óborganleg lesning, fyndin, sár og sönn. Komum betur að sanngildinu síðar. Tíðarandinn sem gegnsýrir bæði dvölina á Núpi, hina óborganlegu svallferð til Ísafjarðar og Reykjavíkurtímann undir lokin, er algerlega sannfærandi – um það getum við jafnaldrar Jóns vitnað. Já og hin púrítanska tónlistarsmekkvísi. Mikið tengi ég við þetta, þó ég hafi nú bara alist upp í foreldrahúsum og aldrei sniffað lím. Hlustað þeim mun meira á Crass. Mikið gladdi það mig að rifja anarkópönkið upp í þessum félagsskap.
En fyrr eða síðar þarf nú samt einhver sem er ekki Jón Gnarr að skrifa sagnfræðilega, yfirvegaða og pottþétta bók um notkun héraðsskólakerfisins sem félagsfræðilegs, sálræns og unglingarefsilegs úrræðis fyrir.
Þetta er ekki sú bók. Þetta er glóruleysisbókin. Bókin um eftirlitsleysið á vistinni, frelsisþrá unglings sem veit ekkert hvað hann á að gera með lausungina og frekar ískyggilegt athafnafrelsi læknastéttarinnar, ef marka má einn umtalaðasta kafla bókarinnar.
Hvað er satt í þessari bók? Er það aðalatriðið? Eða skiptir það engu máli ef sagan er góð? Þegar sögumennirnir eru jafn sér á parti, og jafn heiftarlega umdeildir, og Jón Gnarr eru allavega fáir á ferli á milliveginum sem fer augljóslega næst hinu rétta svari.
Ég veit það ekki. Mér finnst samt að sá sem lýsir hópnauðgun í ævisögu sinni og mætir í viðtöl og talar um hvað reynslan af að skrifa bókina hafi verið erfið, þá verði höfundurinn að standa við staðreyndirnar. Þetta er ekki skáldsaga. Það var fleira fólk á Núpi sem hefur annað og betra að gera en að berja af sér það sem Jón kýs að krydda með sína mögnuðu þroskasögu. Ef það sem hann segir frá er ekki satt.
Ég veit ekkert um það. Ég les framhjá þessu og horfi á þessa makalausu mann- og aldarfarslýsingu og nýt þess að fá þetta einstaka sjónarhorn á kunnuglegan tíma og einkennilega mann. Útlaginn er ein merkilegasta bók ársins.