Þjóðkirkjan fær 370 milljónir aukalega af fjáraukalögum samkvæmt tillögu meirihluta fjárlaganefndar, sem var lögð fram á Alþingi í dag. Framlagið er háð því kirkjan „skuldbindi sig til þess að hefja þegar þegar samningaviðræður um endurskoðun kirkjujarðasamkomulagsins sem feli í sér endurskoðun allra fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju (þ.m.t. hvað varðar sóknargjöld, jöfnunarsjóð sókna, framlög til kirkjumálasjóðs og Kristnisjóðs) með verulega einföldun þessara samskipta og hagræðingu að markmiði.“
Gert er ráð fyrir því að þessari endurskoðun á fjárhagslegum samskiptum ríkisins og þjóðkirkjunnar verði lokið fyrir lok febrúar á næsta ári.
Framlagið til Þjóðkirkjunnar er rökstutt með því að reiknað sé samkvæmt upphaflegu kirkjujarðasamkomulagi, og þar með verði allar aðhaldskröfur sem gerðar hafa verið til kirkjunnar frá 2009 verði afturkallaðar árið 2015.
Meirihluti fjárlaganefndar leggur einnig til 3,5 milljarða króna hækkun á fjáraukalögum, sem fari í að mæta áhrifum nýgenginna gerðardóma um kjör hjúkrunarfræðinga, félagsmanna BHM og vegna kjarasamninga sem voru gerðir á seinni hluta þessa árs. Alls leggur meirihluti nefndarinnar til að útgjöld hækki um fimm milljarða króna. Aðrar helstu breytingar sem lagðar eru til er hækkun til sjúkratrygginga, sem nemur 835 milljónum króna. Þá hækka vaxtagjöld um 421 milljón og framlög til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækkar um 215 milljónir.
Betri afkoma en ætlað var í fjárlögum
Tvær meginskýringar eru sagðar á því að tekjuáætlun fjárlaga er hækkuð um samtals 31,7
milljarða kr. í breytingartillögunni. „Annars vegar hafa áhrif kjarasamninga, hátt atvinnustig og hagstæðar þjóðhagshorfur
leitt til þess að nú er áætlað að skattar á tekjur og hagnað bæði einstaklinga og fyrirtækja
leiði samtals til 15,1 milljarðs kr. hækkunar frá fjárlögum. Hins vegar er nú fyrirséð
að arðgreiðslur í heild hækka um 10,2 milljarða kr. frá fjárlögum. Þar munar langmest um
arðgreiðslur frá Landsbanka Íslands sem nema um 15 milljörðum kr. Á móti vegur reyndar
lægri arðgreiðsla frá Seðlabanka Íslands.“
Þá vekur athygli að virðisaukaskattur og aðrir skattar á vöru og þjónustu eru nú taldir munu skila um 6,6 milljörðum króna meira en áætlað var í fjárlögum.