Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur rétt út sáttahönd til Rússlands og segir tyrknesk stjórnvöld tilbúin að vinna með þeim að hernaðaraðgerðum við landamæri Tyrklands og Sýrlands. Hann varar Rússa enn fremur við því að „leika sér að eldinum“ og hóta hefndaraðgerðum vegna þotunnar sem Tyrkir skutu niður við landamæri Tyrklands og Sýrlands í síðustu viku, með þeim afleiðingum að annar flugmanna þotunnar lést en hinn komst af við illan leik, eftir tólf tíma björgunaraðgerð sérsveitar rússneska hersins. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC.
Tyrkir njóta stuðning Atlantshafsbandalagsins NATO, en Rússar hafa byggt sínar hernaðaraðgerðir í Sýrlandi á víðtæku samstarfi við stjórnarher Sýrlands, þar sem Assad forseti er æðsti yfirmaður.
Bandarísk stjórnvöld hafa kallað eftir að hernaðumsvif Tyrkja, og eftir atvik bandalagsþjóða þeirra, verði aukin við landamæri Sýrlands.
Rússar hafa sakað Tyrki um að hafa skotið þotuna niður í órétti, þar sem hún hafi ekki verið í lofthelgi Tyrklands heldur Sýrlands. Þá hafi viðvaranir ekki komið fram, eins og tyrknesk stjórnvöld hafa ítrekað sagt.
Rússar hafa ekki brugðist við sáttaboði Tyrkja, en Vladímir Pútín, forseti Rússlands, hefur sagt að þessar hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Rússum geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir Tyrki. Nú þegar hefur verið gripið til þess að setja viðskiptabann á tyrkneskar vörur í Rússlandi, og að þá verða samningar um leyfi fyrir tyrkneska starfsmenn í Rússlandi ekki framlengdir.
Frekari aðgerðir Rússa hafa ekki verið kynntar enn sem komið er, en Pútín segir að Rússar muni halda áfram hernaðaraðgerðum sínum í Sýrlandi gegn íslamska ríkinu, og hefur hvatt þjóðir heimsins til þess að sameinast í þeim.