Eign tveggja lífeyrissjóða í bæði N1 og Skeljungi getur haft skaðleg áhrif á samkeppni á eldsneytismarkaðnum. Þetta kemur fram í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um samkeppni á olíumarkaði.
52% eigenda Skeljungs eiga líka 24% hlut í N1. Þetta kemur í ljós þegar dregnar eru saman upplýsingar um 20 stærstu eigendurna í hvoru félagi fyrir sig. Þessir eigendur eru Arion banki, lífeyrissjóðurinn Gildi, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Stapi lífeyrissjóður og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.
„Umrædd eignatengsl hafa þau áhrif að meirihluti eigenda Skeljungs hefur beinan hag af því að fyrirtækið keppi ekki jafn mikið við N1 eins og aðra keppinauta á markaðnum,“ segir í skýrslunni.
Samkeppniseftirlitið segir að við mat á áhrifum tengsla eins og þessara skipti ekki meginmáli hvers kyns fyrirtæki sé um að ræða. Horfa þurfi til þess hvernig og hversu mikil eignartengslin séu, með tilliti til möguleika til áhrifa í félaginu með skipan stjórnarmanna og svo framvegis.
Líklegt er að eign Gildis og LSR geti haft skaðlegust áhrif á samkeppni á eldsneytismarkaðnum. Meginástæða þess er að LSR er annar stærsti hluthafinn í báðum olíufélögum og Gildi er þriðji stærsti hluthafinn í báðum. „Augljóst er að báðir lífeyrissjóðirnir hafa í því ljósi möguleika á að hafa áhrif á stefnu viðkomandi fyrirtækja, en vakin er athygli á því að sjóðirnir eiga viðlíka hluti í báðum félögunum,“ segir í skýrslunni.
Dæmi er tekið af því að fyrir hvern seldan lítra sem Skeljungur missir yfir til N1, svo sem vegna verðhækkunar sem leiðir til þess að viðskiptavinir færa sig yfir, þá vinna þessir tveir hluthafar, Gildi og LSR, upp 60% af tapinu vegna eignarhluta sinna í N1. Ef þau ættu ekki í báðum félögum væru áhrifin af verðhækkuninni þau að hluthafar Skeljungs gætu ekki endurheimt tapið nema með því að lækka verðin aftur. Það er því ljóst, segir Samkeppniseftirlitið, að hvatar þessara eigenda til að stuðla að samkeppni eru takmarkaðir.
Stjórnunartengsl á milli fyrirtækja á eldsneytismarkaði eru ekki mikil í dag, en Samkeppniseftirlitið telur engu að síður að það skapist ákveðin hætta á því að hagsmunaárekstrar sem hljótist af því að sömu aðilar komi að stjórnun tveggja eða fleiri fyrirtækja leiði til takmörkunar eða skaðlegra áhrifa á samkeppni, almenningi til tjóns.