Samkeppni á íslenskum eldsneytismarkaði er „verulega skert“ og álagning olíufélaganna á bensín mikil. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Samkeppniseftirlitinu, sem gerði markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum hér á landi. Eftirlitið segir þetta mikið áhyggjuefni.
Bensínverð á Íslandi er hærra en gengur og gerist í flestum öðrum vestrænum ríkjum og munurinn er svo mikill að það er ekki hægt að skýra hann með smæð markaðarins eða auknum kostnaði vegna sölu eldsneytis hér á landi, segir Samkeppniseftirlitið. Álagningin og óhagkvæmur rekstur olíufélaganna á þessu sviði bendir líka til þess að takmörkuð samkeppni sé fyrir hendi. Olíufélögin stunda háttsemi sem getur hindrað samkeppni og miklar aðgangshindranir eru fyrir nýja aðila að koma inn á þennan markað.
Samkeppniseftirlitið fullyrðir ekki hvort um samráð er að ræða, en segir sterkar vísbendingar um að olíufélögin samhæfi hegðun sína með „þegjandi samhæfingu.“
Samkeppniseftirlitið telur að þörf sé á aðgerðum til að bæta hag almennings í bensínmálum, enda sé eldsneytismarkaðurinn þjóðhagslega mjög mikilvægur. Samkvæmt skýrslunni greiddu neytendur 4.000 til 4.500 milljónum króna of mikið í bensín á síðasta ári.
Grípa þarf til aðgerða til að auka samkeppni, sem myndi verða til hagkvæmari reksturs olíufélaganna og það myndi stuðla að lægra verði til neytenda, segir Samkeppniseftirlitið. Það þarf því að breyta aðgangshindrunum að markaðnum.