Bensínstöðvum á Íslandi hefur farið fjölgandi undanfarin ár, þvert á þróun víða annars staðar í Evrópu. Þetta kemur fram í skýrslu Samkeppniseftirlitisins á olíumarkaðnum á Íslandi. Há álagning olíufélaganna gerir þeim kleift að halda úti svona mörgum bensínstöðvum, en ef það væri virkur samkeppnismarkaður á Íslandi ætti bensínstöðvunum að fækka um allt að 30%.
Bensínstöðvum á Íslandi fjölgaði um 18, sem eru rúmlega 8%, milli áranna 2005 og 2014. Stærstur hluti fjölgunarinnar var vegna þess að Atlantsolía stækkaði á tímabilinu, en Olís fjölgaði líka sínum stöðvum um 6.
Fjöldi bensínstöðva í Reykjavík tvöfaldaðist á árunum 1983 til 2010 á meðan íbúum í Reykjavík fjölgaði um 35% á sama tímabili. Þetta þýðir að færri íbúar eru um hverja bensínstöð, eða tæplega 2.700 manns, á meðan að ein bensínstöð var fyrir hverja fjögur þúsund íbúa árið 1983. Á Akureyri eru þrettán bensínstöðvar, sem gerir eina bensínstöð fyrir hverja 1.400 íbúa.
Það er há álagning sem gerir olíufélögum kleift að halda úti fleiri bensínstöðvum en annars, segir Samkeppniseftirlitið. Eins og Kjarninn hefur greint frá segir eftirlitið að álagning á bensín hafi aukist um 19% og á dísel um 50% á undanförnum árum. Ef að álagning væri í samræmi við heilbrigðan markað þar sem ekki eru samkeppnisskaðandi aðstæður myndi bensínstöðvum fækka um allt að 30% að mati Samkeppniseftirlitsins.
Á virkum markaði hefði þetta átt að gerast í kjölfar hrunsins vegna þess að þá minnkaði eftirspurn eftir eldsneyti og fyrirtækin áttu í erfiðleikum. Það hefði átt að auka samkeppni um viðskipti, sem hefði leitt til lægri álagningar og óhagkvæmum bensínstöðvum hefði verið lokað. Mikill fjöldi bensínstöðva bendir hins vegar til þess að samkeppni sé skert vegna þess að þau stundi samhæfða hegðun.
Bensínstöðvum hefur fækkað í tólf af sextán Evrópulöndum sem vísað er til í skýrslunni, og mest fækkun verið á Ítalíu, í Frakklandi og Bretlandi, en í síðastnefnda landinu hefur bensínstöðvum fækkað um 20% á átta árum.
Selja líka minna bensín
Að meðaltali selst líka minna af bensíni á hverri bensínstöð en gerist í helstu samanburðarlöndum Íslands. Í Noregi og í Svíþjóð er gegnumstreymi eldsneytis rúmlega tvöfalt meira en á Íslandi. Þetta á líka við þegar dreifbýlli svæði eru tekin út fyrir sviga og aðeins er skoðað ástandið á höfuðborgarsvæðinu. Samt eru fáir íbúar um hverja bensínstöð og gegnumstreymið lítið.
Reykjavík gagnrýnd fyrir að takmarka fjölda lóða fyrir bensínstöðvar
Eftir þessa miklu fjölgun bensínstöðva í Reykjavík hefur borgin tekið upp þá stefnu að takmarka fjölda lóða undir bensínstöðvar. Þetta er hins vegar líka gagnrýnt í skýrslu Samkeppniseftirlitsins, vegna þess að þetta er talið torvelda aðgang nýrra keppinauta að eldsneytismarkaðnum. Það hefur einnig skaðleg áhrif á markaðinn.