Hagfræðideild Landsbankans hefur uppfært verðmat sitt á Högum, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Bónuss, í kjölfar síðasta uppgjörs félagsins, og metur það tölurvert yfir markaðsvirði dagsins. Mælt er með því að fjárfestar kaupa bréf í félaginu.
Virði Haga er metið á 49,2 kr. á hlut, samkvæmt verðmatinu, sem er hækkun frá síðasta verðmati bankans og 11,4 prósent hærra en dagslokagengi félagsins í gær. Gengi bréfa Haga hefur hækkað um 3,17 prósent í dag, meira en hjá öðrum félögum, en heildarvelta viðskipta með bréfin var um 402 milljónir króna í dag, samkvæmt vef Keldunnar.
Verja framlegð
Í verðmati hagfræðideildar Landsbankans, sem Kjarninn hefur undir höndum, kemur fram að stjórnendum Haga hafi tekist að verja framlegð og hagnað á rekstrarárinu, þrátt fyrir að launa- og rekstrarkostnaður hafi hækkað nokkuð. Fyrstu tölur úr rekstrinum virðist gefa til kynna að áhrifin verði ekki mikil á rekstur félagsins. Helstu áhættuþættir séu sem fyrr tengdir verðbólgu, gengi krónunnar og samkeppni.
Í verðmatinu segir að Hagar séu markaðsráðandi fyrirtæki og ekki líklegt að markaðshlutdeild fyrirtækisins geti aukist mikið. „Það er viðbúið að vöxtur Haga fari að miklu leyti eftir verðbólguþróun og hagvexti, til lengri og skemmri tíma. Verðbólguhorfur eru lágar fram á mitt næsta ár, en þá gerir spá Hagfræðideildar ráð fyrir að hún aukist og verði 4,7 prósent árið 2017 og 3,9 prósent árið 2018. Fyrirhugaðar tollabreytingar munu einnig hafa áhrif á tekjuvöxt Haga, en afnám tolla á föt munu taka gildi um áramótin. Þrátt fyrir litla verðbólgu árið 2016 og tollabreytingar er gert ráð fyrir góðum hagvexti og töluverðri aukningu í einkaneyslu, sem vegur á móti og styður við tekjuvöxt 2016. Allar vísbendingar um neyslu vísa uppá við og mun það styðja við tekjuvöxt Haga,“ segir í verðmatinu.
Hagræðing og aukin neysla í kortunum
Kjarasamningarnir sem samþykktir voru í vor höfðu 6,3 prósent aukningu í launakostnaði félagsins í för með sér á öðrum ársfjórðungi. Að auki jókst annar rekstrarkostnaður um 3,4 prósent milli ára á öðrum ársfjórðungi, að því er segir í verðmatinu.
Ljóst sé að launakostnaður muni halda áfram að hækka á næsta ári og telja greinendur að félagið muni leita leiða til að hagræða í rekstri til þess að mæta auknum kostnaði. Félagið áætlar að ná fram sparnaði með því að fækka leigufermetrum sínum, sérstaklega með lokun verslana á Korputorgi og minnkun verslunarinnar í Smáralind, eins og fram hefur komið.
„Á móti kemur að félagið mun opna nýjar verslanir í Keflavík, Vestmannaeyjum og í Skipholti. Þá mun nýtt vöruhús Banana verða tekið í notkun árið 2016. Kostnaður við bygginguna er um 1,5 milljarður króna og mun þungi fjárfestingarinnar lenda yfirstandandi rekstrarári. Aukin hagkvæmni í fasteignum félagsins styður afkomu félagsins fram á við,“ segir í verðmatinu.
Samkeppni við Costco
Sérstaklega er vikið að því að samkeppni verði alltaf áhættuþáttur fyrirtækja á matvörumarkaði, og þar beinast spjótin ekki síst að Högum. Þrátt fyrir fyrirhugaða opnun Costco í Garðabæ þá virðast greinendur ekki meta mikil áhrif vegna þessa í verðmat Haga „enda samkeppni alltaf viðvarandi áhættuþáttur hjá markaðsráðandi fyrirtæki“ eins og segir í verðmatinu.
Búist er við því að EBITDA rekstrarhagnaður rekstrarársins verði 5,5 milljarðar króna og í heild 1,4 prósent lægri en á síðasta rekstrarári. „EBITDA framlegðin var 7,3 prósent árið ́14/15 og við gerum ráð fyrir að hún verði 7,1 prósent á þessu ári og síðan sjö prósent þar eftir. Hagræðingaraðgerðir næstu ára munu hafa mikið að segja og miklar breytingar í gengi krónu munu eftir sem áður hafa áhrif á tekjuvöxtinn,“ segir í verðmatinu.