Fjármálaeftirlitið hefur sektað Arion banka um 30 milljónir króna fyrir að hafa brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti. Það gerði bankinn með því að selja hlutabréf sín í Högum hf. á sama tíma og bankinn bjó yfir innherjaupplýsingum um Haga. Arion banki segist sannfærður um að hafa farið að lögum.
Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins kemur fram að hluthafi í Högum hafi óskað eftir því við Arion í febrúar í fyrra að bankinn leitaði að kaupendum fyrir 3 til 6 prósenta hlut í félaginu. Hluthafinn var fjárhagslega tengdur fruminnherjum í fyrirtækinu. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var þarna um að ræða félagið Hagamelur ehf., félag í eigu fjárfestanna Árna Haukssonar, Hallbjörns Karlssonar og Sigurbjörns Þorkelssonar. Þeir seldu 6,6 prósenta hlut í Högum á þessum tíma. Með sölunni innleystu þeir 2,3 milljarða króna hreinan hagnað á fjárfestingu sinni í félaginu, sem var mesti hagnaður sem einkafjárfestir hafði innleyst frá hruni vegna hlutabréfaviðskipta. Kjarninn greindi ítarlega frá viðskiptunum þegar þau áttu sér stað.
Bankinn hafði samband við lífeyrissjóði og í ljós kom að talsverð eftirspurn var eftir hlutabréfum og bankinn ákvað í kjölfar þess að bjóða öðrum hluthöfum að selja hluti í Högum á sama gengi og sömuleiðis bankanum sjálfum. Bankinn seldi hlut í Högum fjórum dögum eftir að hluthafinn kom til bankans.
Fjármálaeftirlitið telur að upplýsingar um fyrirhugaða sölu fjárhagslega tengds aðila á stórum hlut í Högum hafi verið innherjaupplýsingar, sem hafi verið nægjanlega tilgreindar og líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfanna ef þær væru opinberar.
Í fyrsta lagi hafi umtalsverður hlutur verið seldur í einu lagi á skömmum tíma og því hafi myndast skyndilega mikið framboð af bréfum, sem líkur stóðu til að myndi leiða til lækkunar á verði. „Slíkar verðbreytingar eru þó alla jafna skammvinnar ef ekki eru fólgnar frekari upplýsingar í viðskiptunum, enda fælust forsendur verðlækkunarinnar þá ekki í undirliggjandi rekstri eða framtíðarvæntingum um gang félagsins. Engu að síður hefði verið unnt að hagnast á verðhreyfingunni.“
Og í öðru lagi hafi verið fólgnar ákveðnar upplýsingar í viðskiptunum, stór og leiðandi hluthafi var að selja stærstan hlut sinn í félaginu. „Almennt hefur brotthvarf kjölfestufjárfestis úr hluthafahópi neikvæð áhrif á hlutabréfaverð viðkomandi félags, í það minnsta til skemmri tíma. Það sem veldur hinum neikvæðu áhrifum er að þegar þeir aðilar sem almennt eru taldir búa yfir mestu yfirsýninni og bestu upplýsingunum um rekstur félagsins sjá ekki lengur hag sinn í því að binda fjármuni í félaginu gefa þeir með sölunni vísbendingu um að verð bréfanna sé orðið of hátt metið og því ættu aðrir fjárfestar að fylgja í kjölfarið og reyna að selja sín bréf. Því mátti fyrirfram draga þá ályktun að salan kynni að hafa marktæk áhrif á skráð hlutabréfaverð Haga hf.“
Viðskiptin fóru fram í gegnum óhljóðritaða síma
Arion banki andmælti ekki því mati Fjármálaeftirlitsins á að um innherjaupplýsingar hafi verið að ræða, samkvæmt því sem fram kemur í ákvörðun eftirlitsins. Bankinn viðurkennir í yfirlýsingu í dag að ágallar hafi verið á framkvæmdinni við sölu bréfanna, en segist sannfærður um að hafa farið að lögum í umræddum viðskiptum. Ágallarnir hafi verið þeir að ekki hafi verið farið að verklagsreglum hvað varðar rekjanleika samskipta og þess vegna hafi bankinn ekki getað fært fullar sönnur á að rétt hafi verið staðið að málum.
Bankinn segir að það sé miður að framkvæmdin hafi ekki verið eins og best verði á kosið. Til að mynda hafi viðskiptin að mestu farið fram í gegnum óhljóðritaða síma. Fram kemur í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að haft hafi verið samband við fjárfesta eftir lokun markaða og yfir helgi.
„Arion banki telur að í umræddum viðskiptum, þegar bankinn undir lok febrúar 2014 seldi um 1% í Högum, hafi verið farið að lögum þar sem allir aðilar viðskiptanna hafi búið yfir sömu upplýsingum. Upplýsingarnar sem um ræðir snúa að því að hluthafi sem var fjárhagslega tengdur fruminnherjum í Högum hafði, fyrir milligöngu markaðsviðskipta bankans, selt hlutabréf í félaginu. Afstaða bankans er að ekki geti verið um brot á innherjareglum að ræða þegar aðilar viðskipta hafa sömu upplýsingar og byggist sú afstaða á Evróputilskipuninni sem íslensku verðbréfaviðskiptalögin grundvallast á, lögskýringargögnum, lögfræðiálitum og dómafordæmum frá Evrópudómstólnum. Um þetta hefur ágreiningur bankans við Fjármálaeftirlitið snúist,“ segir bankinn í tilkynningu.
„Í kjölfar viðskiptanna hefur verklag innan bankans verið skerpt þannig að alltaf verði unnt að færa sönnur á framkvæmd viðskipta. Arion banki hefur engu að síður þá staðföstu trú að aðilar þessara tilteknu viðskipta hafi verið jafnsettir og að lög um verðbréfaviðskipti hafi ekki verið brotin.“