Gagnrýni fjármálaráðuneytisins á húsnæðisbótafrumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra stendur að miklu leyti óbreytt, þrátt fyrir breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá því að það var lagt fram fyrst á síðasta þingi. Breytingarnar sem hafa verið gerðar eru þess eðlis að þær hafa ekki teljandi áhrif á áætlaða útgjaldaaukningu og ekki heldur teljandi áhrif á réttindi einstakra bótaþega, segir fjármálaráðuneytið í umsögn sinni um frumvarpið.
Frumvarp Eyglóar Harðardóttur um húsnæðisbætur, sem hefur verið lagt fram í annað sinn, byggist að hluta til á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og einnig á tillögum vinnuhóps um húsnæðisbætur. Því er ætlað að vera liður í því að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform og stuðla að raunverulegu vali um búsetuform. Það á líka að koma til móts við þau heimili sem hafa lægstar tekjur og auka stuðning við efnaminni leigjendur. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að grunnbæturnar hækki í 31 þúsund krónur á mánuði. Frumvarpið hefur eðli málsins samkvæmt verið afgreitt úr ríkisstjórninni, og hefur þá væntanlega verið samþykkt af fjármálaráðherra.
Hagnast efnamiklum meira, öryrkjum, öldruðum og tekjulágum minna
Fjármálaráðuneytið hefur engu að síður sett fram ýmsar efasemdir um frumvarpið. Samkvæmt frumvarpinu mun ríkið taka yfir greiðslur almennra húsnæðisbóta en sveitarfélögin verða áfram með sérstakar húsaleigubætur. Þetta segir ráðuneytið flækja ferlið fyrir þá sem fá báðar tegundir bóta, enda þarf þá að sækja um og fara í gegnum ferlið á tveimur stöðum. Þá er sagt í umsögn ráðuneytisins að það sé veigamikill ágalli í frumvarpinu að ekki liggi fyrir verkaskiptasamkomulag á milli ríkisins og sveitarfélaga um fjárhagsleg samskipti um þessi mál.
Einnig bendir fjármálaráðuneytið á það að með breytingunum mun lífeyrir aldraðra og öryrkja koma til skerðinga á bótum, en þessar greiðslur eru núna undanþegnar skerðingum á húsaleigubótum. Þá mun hækkun á húsnæðisbótum hlutfallslega hagnast þessum hópum minna en þeim sem eru vinnandi eða í námi. Ástæðan er sú að húsaleigubótakerfið verður gert líkara vaxtabótakerfinu með breytingunum, og allar skattskyldar tekjur þannig taldar til skerðinga, til þess að gæta meira jafnræðis og samræmis í tekjutilliti kerfisins.
Þá segir fjármálaráðuneytið áfram að breytingarnar muni leiða til „miklu meiri hlutfallslegrar hækkunar“ meðalbóta hjá þeim efnameiri en þeim efnaminni. Meðalhækkun bóta hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum með minna en fimm milljónir í árstekjur verður 28% en hjá þeim sem hafa meira en fimm milljónir verður hækkunin 78%. Þetta samrýmist ekki markmiðinu um að auka stuðning við efnaminni leigjendur.
Hvati til leigusala að hækka verð
Fjármálaráðuneytið segir einnig að aukinn stuðningur með hækkun húsnæðisbóta myndi hvata fyrir leigusala til þess að hækka leiguverðið með hliðsjón af aukinni eftirspurn eða greiðslugetu. Þegar ástandið sé eins og nú er á leigumarkaði „eru allar líkur á að stóraukinn ríkisstuðningur í formi niðurgreiddrar leigu muni fljótlega leiða til hækkunar á leiguverði. Þannig má leiða líkur að því að þessi aukni húsnæðisstuðningur muni skila ábata í meiri mæli til leigusala en til leigjenda og að hætt verði við því að staða leigjenda batni ekki að því marki sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, a.m.k. ekki til skemmri tíma litið,“ segir fjármálaráðuneytið.
Ekki ákveðið hvaða stofnun sér um bæturnar
Fjármálaráðuneytið vekur sérstaklega athygli á nokkrum breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu á milli ára. Fyrir það fyrsta liggur ekki fyrir hvaða stofnun á að annast framkvæmd húsnæðisbóta fyrir hönd ríkisins þrátt fyrir að frumvarpinu sé ætlað að taka gildi á næsta ári. Í fyrri útgáfu frumvarpsins var gert ráð fyrir því að Tryggingastofnun myndi sjá um framkvæmdina á þessu.
Önnur breyting sem gerð hefur verið er að lagt er til að ráðherra geti breytt skerðingarhlutfalli vegna tekna og eigna með reglugerð, en þetta telur fjármálaráðuneytið afar óheppilegt. Þannig væri komið á fyrirkomulagi þar sem framkvæmdarvaldinu væri heimilt með reglugerð að gera veigamiklar breytingar á húsaleigubótakerfinu sem gætu hvort sem er falið í sér verulega aukin eða minnkuð tilfærsluframlög til einstaklinga og heimila úr ríkissjóði án þess að það komi til ákvörðunar á Alþingi. Slíkar breytingar eigi einungis að vera hægt að gera með lagabreytingu með sama hætti og öll önnur bótakerfi, eins og vaxtabætur, barnabætur og elli- og örorkulífeyri.